135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:08]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það er gott að hv. þingmenn rétti úr baki sínu og opni eyrun eftir langar og miklar umræður um fjárlögin sem hafa staðið mjög lengi. Umræðan um fjárlög er mikilvæg og kannski merkilegasta umræða hvers þings og mikilvægasta því ekkert skiptir meira máli en fjárlög, skipting tekna ríkisins o.s.frv.

Sannleikurinn er sá þegar við horfum á þjóðarbúskapinn sem fjallað er um í þessu riti, þjóðhagsspá fyrir árin 2007–2012 og lítum til baka þá er það kannski aðeins eitt sem skiptir stóru máli og kemur skýrt fram í þessu riti, það er að landsframleiðsla á mann hefur allt að því tvöfaldast á Íslandi á árunum frá 1996 til dagsins í dag. Það segir okkur að lífskjör okkar eru með allt öðrum hætti í dag en þau voru fyrir 10–12 árum. Við Íslendingar erum í rauninni að fást við allt önnur verkefni en þá brunnu á öllum stjórnmálamönnum. Þá stóðum við frammi fyrir landflótta, atvinnuleysi, svartsýni og fyrirtækjum sem voru í erfiðleikum en þetta hefur allt saman snúist við. Það skiptir auðvitað öllu máli að það hefur tekist að tvöfalda landsframleiðsluna á hvern einasta Íslending. Ekki síður skiptir það miklu máli að á Íslandi er atvinna það mikil að við höfum kannski áhyggjur af því atvinnustigi í dag en við erum einstakt land í veröldinni.

Það er líka vert að hugsa um það við fjárlagaumræðuna að það er ekkert sjálfgefið í þessum efnum. Nú verðum við að fást við önnur verkefni en við urðum að gera 1996. Afkoma einstaklinganna og fyrirtækjanna og þjóðarbúsins getur eins og þá oltið á því hvernig ríkisstjórnin heldur á sínum málum.

Sannleikurinn er auðvitað sá að Íslendingar hafa oft verið betri að fást við kreppur sínar og vinna sig upp úr þeim en eiga við bjartsýnis- og þenslutímabilin. Kannski erum við ekki komnir lengra í mannkynssögunni en þar að það sem segir í Biblíunni er enn við lýði í pólitíkinni. Það koma sjö öflug ár. Síðan taka oft við sjö mögur ár. Þess vegna ber alltaf að leggja til hliðar og búa sig undir verri árin. Við sjáum þess auðvitað merki að víða er farið offari í þjóðfélaginu. Á góðæristímanum byggja menn kringlur og perlur og risahús þar sem þeir ætla að afla fjár og græða og eyða þjóðarauðnum í rauninni ekki í þá verðmætasköpun sem hann ætti að fara í.

Hæstv. forseti. Það var ánægjulegt á dögunum að verða vitni að því að Ísland, landið okkar, sem var fátækasta land Evrópu fyrir 100 árum hlaut fyrsta sætið, hlaut gullið að mati Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Það er fallinn hlutlaus dómur um pólitíska stöðu Íslands og þær miklu framfarir sem hafa átt sér stað á síðustu 12 árum.

Árið 2005 er mælikvarðinn. Þá veltum við Noregi úr sessi úr fyrsta sætinu og hreppum gullið. Þarna er verið að bera saman 177 þjóðir. Þetta er ekkert einfaldur leikur því að lífskjör eru auðvitað góð í mörgum þessum löndum og Íslendingar erlendis sem hafa talað við mig og voru staddir erlendis síðustu daga segja að hamingjuóskum hafi rignt yfir þá og spurningum um hvernig þessi litla þjóð færi að því að skapa svo góð lífskjör.

Nú er ég ekki að halda því fram þegar ég er að tala um þessi lífskjör að allir hlutir séu hér eins og þeir eigi að vera því lífið er eilíf barátta. Það þarf að jafna kjör og takast á við ný og ný verkefni. Þessi árangur okkar byggir á vísitölu um lífsgæði. Ísland sigrar á þremur meginstöðum. Það skiptir mestu landsframleiðsla á mann, aðgengi fólks að menntun og menntunarstig, enn fremur lífslíkur og meðalaldur þjóðarinnar. Það skal tekið fram að mælingin er byggð, eins og ég sagði áðan, á efnahagsstöðu Íslands og Íslendinga árið 2005. Við framsóknarmenn fögnum þessari niðurstöðu. Hún staðfestir þann mikla árangur sem Íslendingar og íslensk fyrirtæki hafa náð á síðustu árum og vert er að minnast á það að Framsóknarflokkurinn fór með forustu í ríkisstjórn landsins á þessum tíma og hafði í öflugri ríkisstjórn í samstarfi við höfuðandstæðing sinn, Sjálfstæðisflokkinn, lagt grunn að svo mörgu í heilan áratug þegar þessi mæling fór fram.

Hugsið ykkur hvað viðhorfin hafa snúist við. Það var verið að vígja mesta mannvirki Íslandssögunnar í dag, Kárahnjúkavirkjun, umdeild en þó vissa þess á Austurlandi að hjól atvinnulífsins hafa snúist þar með þessari virkjun og stóru iðnaðarveri á Reyðarfirði. Staða fólksins er öðruvísi, eignirnar eru verðmætari og þessu ber auðvitað að fylgja eftir. En þegar við komum í kreppunni inn í ríkisstjórn fyrir 12 árum þá hafði iðnaðarráðherra þess tíma farið víða um veröld til að reyna að ná erlendri fjárfestingu inn í landið en það var okkar hlutskipti að fanga hana, stækkun álversins í Straumsvík var tímamót og hafði mikil áhrif.

Hjól atvinnulífsins tóku að snúast á nýjan leik og á mörgum sviðum, eins og við sjáum í útrásinni og uppbyggingu samfélagsins á þessum tíma. Þennan grunn lögðum við framsóknarmenn í góðu samstarfi með Sjálfstæðisflokknum og leggjum því Samfylkingunni til góðan búskap. Vissulega eru fjárlög sem hér eru lögð fram öflug, þau eru þanin. Menn óttast aðgerðarleysi ríkisvaldsins.

Ég minni á að það er gaman að hugsa til þess að tvö lönd, eins og komið hefur fram í umræðu í þinginu, Ísland og Noregur, skera sig úr í Evrópu sem lönd hinna miklu lífsgæða í úttekt Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Vakin hefur verið athygli á því að bæði þessi lönd standa utan Evrópusambandsins en eiga í gegnum öfluga viðskiptabrú, þ.e. EES-samninginn, aðild að mörkuðum í Evrópu og njóta ákveðins frelsis án þess að þurfa að taka á sig kvaðir og þvinganir af fullri aðild að Evrópusambandinu.

Við framsóknarmenn höfum alltaf talið atvinnu handa öllum grundvallaratriði mannréttinda. Því settum við atvinnu í forgang þegar við fórum í ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn árið 1995. Menn muna enn slagorðið: 12 þúsund ný störf til aldamóta. Þá var á Íslandi gríðarlegt atvinnuleysi og landflótti. Gallinn í mörgum Evrópuríkjum er sá að að atvinnuleysi er þeirra böl. Þar takast þriðja og fjórða kynslóð fjölskyldna á við þá sáru staðreynd að enga vinnu er að hafa fyrir fólkið, þrátt fyrir gott menntunarstig. Það er því gaman að sjá að Sameinuðu þjóðirnar eru á sömu skoðun og Framsóknarflokkurinn, að hamingja mannsins byggist ekki síst á því að atvinnan sé næg, tekjuöflunin góð og því að landsframleiðsla aukist.

Í þessari miklu könnun, og það er einn stærsti þáttur þessa árangurs, er frábært heilbrigðiskerfi með einhverju færasta fólki á sviði læknavísinda og hjúkrunar í víðri veröld. Hve oft höfum við hlustað á umræðurnar í þinginu um heilbrigðiskerfið okkar, að það stæðist ekki tímans tönn og það væri allt í volli. En þetta er einn þyngsti mælikvarðinn, hversu vel hefur tekist í heilbrigðismálum hér á Íslandi, hve framarlega við stöndum. Hugsum til þess að ungbarnadauði hrjáir mörg lönd enn þá en að á Íslandi missum við aðeins tvö börn af hverjum þúsund börnum fæddum. Við skerum okkur úr öðrum þjóðum. Lífslíkurnar eru 81,5 ár hjá Íslendingum. Íslendingar verða allra karla og kerlinga elstir ásamt þeim í Japan og Hong Kong.

Auðvitað er búið vel að íslenskri þjóð. Ríkisvaldið gerir það, sveitarfélögin gera það og frjáls félagasamtök aldraðra hafa haft mikil áhrif til að búa til þessar aðstæður á síðustu árum. Þar fer fram mikið félagsstarf og miðað við það sem við kunnum og getum og tökum þátt í. Ég hygg að íslensk heilbrigðisþjónusta skeri sig úr, ekki síst hvað það varðar að veita öldruðu fólki alla hjálp. Það er ekki spurt hvort maðurinn sé sjötugur, 80 eða 85 ára, hann fer í augnaðgerð, hann fer í mjaðmaaðgerð, hann fer í aðgerðir á sjúkrahúsunum til að laga sig til. Þetta leyfa ekki allar þjóðir. Um þetta verðum við að standa vörð þegar við horfum til framtíðar því lífið er dásamlegt og menn eiga að njóta heilsu og þeirrar tækni og auðs sem við búum yfir.

Menntunin vegur einnig þungt í úttektinni og aldrei fyrr hafa bæði framhaldsskólar og háskólar verið setnir jafnmörgu öflugu ungu fólki sem menntar sig og býr sig undir framtíðina. Framsóknarmenn hafa frá upphafi stofnunar flokksins árið 1916 lagt áherslu á alþýðumenntun, að menntun skipti miklu máli. Íslendingar eru nokkuð ofarlega þótt þeir séu líklega ekki, hvað menntunarstig varðar, nema í 13 sæti. Þar þurfum við að sækja fram. En þessi atriði gera það að verkum að við stöndum okkur vel.

Hins vegar vekur það áhyggjur þegar ég hugsa um fjárlagafrumvarpið. Ég hér tekið undir hið góða sérálit sem fulltrúi framsóknarmanna, hv. þm. Bjarni Harðarson, lagði fram. Hann tekur eðlilega tekur undir margt í þessu góða fjárlagafrumvarpi. Ég minni Samfylkinguna á að hún hefur þá sex mánuðir sem hún hefur starfað í ríkisstjórn byggt allt sitt starf á fjárlagafrumvarpi sem hún greiddi ekki einu sinni atkvæði á síðasta þingi, fjárlagafrumvarp sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn lögðu fram. En það sem ég hef áhyggjur núna af og Framsóknarflokkurinn er það sem kemur hér fram í áliti hv. þm. Bjarna Harðarsonar. En þar segir, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti fjárlaganefndar gagnrýnir harðlega þau lausatök sem eru á efnahagsstjórninni og koma skýrt fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Bent er á að grípa þarf til aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum. Jafnframt því þarf ríkisvaldið að vera búið undir skattalækkanir ef til niðursveiflu kemur í hagkerfinu. Þá telur 2. minni hluti að mikil hækkun ríkisútgjalda, átök milli ríkisvalds og Seðlabanka um efnahagsstjórnina og óraunhæfar tillögur um vegaframkvæmdir verki allt til þess að skapa óvissu sem eykur líkur á harðri lendingu eftir samfellt hagvaxtar- og hagsældarskeið í tíð síðustu ríkisstjórnar.“

Sannarlega er það nú svo, þegar við horfum yfir síðustu ár, að við Íslendingar höfum sennilega lifa lengsta tímabil samfelldrar hagsældar síðustu árin. Þess vegna er mikilvægt, þótt ríkið sé orðið skuldlítið og skuldlaust, hæstv. fjármálaráðherra, að horfa til þess að heimilin skulda mikið í verðtryggðum lánum. Vextirnir hafa hækkað. Fyrirtækin skulda mikið. Atvinnulífið hefur farið mikinn í sókn sinni til þess að búa sig undir framtíðina. Þess vegna óttast ég það eitt að ríkisstjórnin klúðri þessum árangri. Sannarlega vona ég að hún vakni. Það er ekki létt að sitja í ráðherrastól og ekkert léttaverkefni að vera forsætisráðherra.

Við fundum það framsóknarmenn í þeim ríkisstjórnum þar sem við sátum, bjartsýnisárin, að þá var ekki síst þörf að stíga á hemla og ráðast að verðbólgunni, því verðbólgan er óvinur númer eitt, tvö og þrjú hvað launafólkið varðar. Hún er fljót, þegar hún stígur, að taka matarpeningana til sín, peningana sem þarf að nota í börnin eða fötin. Það er ekkert mikilvægara en að stíga á hemla. Því var það svo, eins og hæstv. fjármálaráðherra man, að 1999 var stigið harkalega á hemla til að ná snertilendingu. Það gerðum við 2003 eftir mikla baráttu. Við urðum að draga úr framkvæmdum og fresta. Við urðum að ná samstöðu um það með mörgum aðilum að hinkra í bili, ekki skera niður heldur raða hlutunum í forgangsröð þannig að við réðum við verðbólguna, sem er óvinurinn.

Nú er það ekki Framsóknarflokkurinn einn, þótt hann hafi verið einn um það á þingi, sem hefur gefið ríkisstjórninni gula spjaldið. Allar eftirlitsstofnanir sem hafa fjallað um málefni hæstv. ríkisstjórnar hafa gefið henni gula spjaldið. Seðlabankinn hefur hrópað á hjálp. Hrópað og beðið ríkisstjórnina um að vakna og bregðast við vandanum. Standard & Poor's var hér í nokkra daga í eftirlitsferð og telur málið grafalvarlegt. En því miður hrista hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hausinn og segja: Það þarf engar áhyggjur að hafa. Þetta er allt á góðri leið.

Auðvitað þurfa menn að taka mark á þessum eftirlitsstofnunum. Ég er ekki að segja að það þurfi að fara eftir þeim að öllu leyti. Seðlabankinn veit sem er að ef ríkisstjórnin hefði stigið á hemla eftir kosningar, sem henni bar að gera, þá hefði hann ekki þurft að beita stýrivaxtaákvörðunum með þeim hætti sem hann hefur gert. Fyrir vikið erum við með himinháa vexti, hæstu vexti í veröldinni hjá okkar skulduga fólki. Hefði ríkisstjórnin tekið á hefðu stýrivextirnir aldrei orðið með þessum hætti. Útflutningsatvinnuvegir og samkeppnisatvinnuvegir hafa þjáðst af gengisskráningunni, hækkun krónunnar sem hefur reynt á þá. Hinum megin hefur skapast eyðslusamfélag á Íslandi af því innflutningurinn verður svo mikill. Hæstv. fjármálaráðherra, ef ég man rétt, var mjög glaður þann dag þegar hann fann tugi milljarða sem hann átti ekki von á í ríkiskassann, sem koma nánast beint af eyðslunni.

Ríkisvaldið þarf að hugsa um fólkið í landinu. Ríkisstjórnin er til þess að hugsa um fólkið í landinu. Því miður hefur hún gleymt því. Ég segi hér, hæstv. forseti, að ég er sannfærður um að engin ríkisstjórn er í aðgerðarleysi sínu og ósamstöðu um þær alvarlegu spár um þá alvarlegu þróun sem er yfirvofandi er jafnlík ríkisstjórn sem átti stuttan tíma og ég studdi. Það var ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, 1987 og 1988 sem náði ekki saman um efnahagsmál og sprakk eftir um eitt og hálft ár.

Ég vara við þessari þróun. Ég bið hæstv. ráðherra og þingmenn stjórnarliðsins að átta sig á því að þótt fjárlagafrumvarpið sé á margan hátt glæsilegt og aukning á öllum sviðum þá er hitt stóra málið að við þetta verkefni verða menn að takast. Ég hef margbent á þensluna í húsnæðiskerfinu. Árið 1996 þurftum við að sækja framkvæmdir inn í landið. Núna, árið 2007, þurfum við kannski að draga úr framkvæmdum í landinu, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef bent á húsnæðismarkaðinn þar sem verið er að byggja íbúðir í þúsundavís og talið að 1.000–2.000 íbúðir séu umfram þörf á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir það hefur verð á húsnæði hækkað um 70% á þremur árum, á þessu ári bara um 30%. Þarna liggur einn verðbólguhvatinn. Það eru yfir 20 þúsund erlendir farandverkamenn sem hafa verið kallaðir hingað til að taka þátt í stórverkefnum á Íslandi. Þenslan síðustu árin hefur því ekki verið út af virkjunaráformum. Hún hefur snúist um margt annað.

Ég vildi koma sérstaklega á framfæri þessari hlið fjárlagagerðarinnar. Eins og ég hef sjálfur sagt þá er það svo með kosningaárin að ríkisstjórnir verða alltaf að nota morgunstundina, morgunstund gefur gull í mund. Það skulu Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn minnast að sex mánuðir í pólitík eru langur tími og grunnurinn að því hvernig samstarf þeirra gengur næstu árin. Ég óttast það að byrjunin sé með þeim hætti að þeir eigi eftir að hrekjast á mörgum sviðum, því miður. Það mun fyrst og fremst bitna á alþýðu þessa lands, fyrirtækjunum og framtíðinni.

Ég óttast að byrjunin sé með þeim hætti að þeir eigi eftir að hrekjast á mörgum sviðum, því miður. Það mun fyrst og fremst bitna á alþýðu þessa lands, á fyrirtækjunum og framtíðinni.

Ég vildi að það kæmi fram við umræðuna og þótt ég ætli ekki að tala lengi þá langar mig að minnast á einn þátt og spyrja hæstv. fjármálaráðherra sem hér situr. Við framsóknarmenn gagnrýndum hart, og það kemur fram í nefndaráliti okkar manns úr fjárlaganefnd, hvernig farið var að þegar þorskkvótinn var skorinn niður. Við töldum, og það töldu margir, bæði sjómenn og útgerðarmenn, að þótt einfalt væri að fara eftir sérfræðingunum og skera niður í 130 þús. tonn, mundi það hafa þvílík áhrif, útgerðirnar næðu ekki meðafla og brottkast ykist. Við töldum jafnframt að það yrði gífurlegt áfall fyrir byggðirnar og fyrirtækin, að þau ættu mjög erfitt á næstu árum. Sjávarbyggðirnar á Íslandi sigla nú þess vegna inn í mikla kreppu. Við töldum að vísu að skera ætti niður, fara í 150 þús. tonn í staðinn en það hefði skapað allt aðra stöðu.

Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar í sumar voru hlægilegt fyrirbæri. Þær voru til skammar. Þær snerust í rauninni um allt annað en fyrirtækin sem sáu hundruð sjómanna taka pokann sinn og fara í land. Þau sáu tvö af fjórum skipum í sumum fyrirtækjum vera seld í burtu og fiskverkafólkið missa atvinnu sína og fara heim. Nú standa fyrirtækin frammi fyrir miklum þrengingum af þeim ástæðum næstu árin.

Þarna duga ekki vegir þó að þeir séu mikilvægir, ekki kaffihús eða leikhús. Auðvitað átti ríkisstjórnin að mæta málinu með allt öðrum hætti heldur en hún gerði. Hún átti í fyrsta lagi aldrei að skera svo djúpt sem hún gerði. Það var óskynsamlegt og ég hugsa að sérfræðingarnir séu hissa á því eftir á að farið var að þeirra tillögum. (Gripið fram í.) Þeir eru stundum dálítið pólitískir, því miður. Margir vísindamenn hafa líka sagt að það hafi verið óráðlegt. (Gripið fram í.)

Ég tel að núna, miðað við góða stöðu ríkissjóðs og skuldleysi hans, gæti ríkisstjórnin enn stigið mikilvægt skref til þess að koma til móts við sjávarbyggðirnar sem eiga í erfiðleikum. Í umræðu um kvótakerfið og sjávarútvegsfyrirtækin var tekið upp svokallað veiðigjald sem fer stighækkandi á næstu árum. Það er gjald sem vegur þungt á tekjum fyrirtækjanna. Sum fyrirtæki hafa greitt allt upp í 30–35% af tekjum sínum í veiðigjald en það mun líklega verða hátt í einn eða rúmur milljarður á næsta ári. Það bitnar mjög á sjávarbyggðunum sem nú eiga í erfiðleikum.

Þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Kemur til greina að fella veiðigjaldið niður meðan þetta ástand varir? Ég vil fá skýrt svar frá hæstv. fjármálaráðherra hvað þetta varðar. Ég veit að lækka á gjaldið og fella það af þorski og rækju. Ef veiðigjaldið væri fellt brott eða lækkað næstu tvö, þrjú árin vegna góðrar stöðu ríkissjóðs, kæmi það byggðunum og fyrirtækjum vel. Þau gætu búið sig undir framtíðina og verið tilbúin þegar þorskmagnið eykst á nýjan leik.

Ríkisstjórnin tók 15–20 milljarða út úr sjávarútvegsfyrirtækjunum. Ef gjaldið væri fellt niður tímabundið þýddi það að einn milljarður kæmi til baka til landsbyggðarinnar, til fyrirtækjanna í sjávarbyggðunum og það hefði þýðingu fyrir verkafólkið og sjómennina. Ég held því að það væri skynsamleg aðgerð.

Við getum velt fyrir okkur hvort sanngjarnt sé að leggja slíkt gjald, sem í rauninni er auðlindagjald, á eina atvinnugrein. Er e.t.v. rétt að bíða með gjaldið og geyma það þar til menn hafa komist að pólitískri niðurstöðu, hvað eiga allar auðlindir í eigu þjóðarinnar að gjalda keisaranum, ríkinu, í framtíðinni? Ég vona að ég fái svar frá hæstv. fjármálaráðherra við þessari spurningu.

Ég vil að lokum segja að tíminn fram undan á vetri sem nú er hafinn getur líka reynt á ríkisstjórnina. Ég hef talað fyrir því að þjóðarsátt, eins og gerð var árið 1990, kannski aðeins á öðrum forsendum, væri mikilvæg við þessar aðstæður. Ná þarf saman með atvinnulífinu og verkalýðshreyfingunni, þess vegna líka með bankakerfinu, eins og við gerðum þá. (SJS: Farðu nú að hætta þessu.) Kemur nú mestur mælskumaður Íslands um nokkurt skeið og þreytist á því þegar aðrir tala af skynsemi.

Ég hef nú ekki flutt hér 500 ræður á hverjum vetri eins og hann. Hins vegar er það hárrétt hjá hv. þingmanni að nú fer ég að lægja vindinn og hætta. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að tala mikið lengur. Ég ætlaði bara að minnast á það í lokin að það eru kjarasamningar (Gripið fram í.) — já það hefur verið vindur í seglum hérna í ræðustól. Það eru kjarasamningar fram undan. Þeir geta reynt á fjárlögin. Þeir geta reynt á þjóðfélagið. Þess vegna er mjög mikilvægt að ná skynsamlegri niðurstöðu. Þar geta komið inn umræður um skattamál. Ég hygg að við framsóknarmenn séum algjörlega sammála um, miðað við góða stöðu þjóðarbúsins sem við viljum varðveita og efla, að ekkert er mikilvægara fyrir ríkisvaldið, atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna en að hugsa til þess fólks sem hefur það erfiðast á Íslandi, að bæta kjör þess. Auðvitað þarf að jafna stöðu kvenna og karla á atvinnumarkaðnum sem ég álít, sem faðir þriggja dætra og réttlætismaður og jafnréttissinni við hjartað, mjög mikilvægt. Það er auðvitað það stóra sem við þurfum að gera við þær aðstæður. Við vitum að þróunin hefur ekki verið nógu góð í þeim efnum hvað laun á vinnumarkaði varðar, bæði að konur taki við forustuhlutverkum og að laun verði í rauninni jöfnuð milli karla og kvenna á vinnumarkaði. Þar þurfum við að stíga skref og hraða þeirri þróun.

Að lokum vil ég taka undir nefndarálit hv. þm. okkar framsóknarmanna, Bjarna Harðarsonar, við vörum við mörgu, fyrst og fremst þenslunni sem fylgir þessu frumvarpi. Við hörmum að ríkisstjórnin skuli ekki taka á til að stöðva hana. Mjög margt er gott í frumvarpinu og grunnur þjóðarbúsins er góður. Mikilvægt er að varða vegferðina fram undan, að Ísland haldi toppsæti sínu sem sú þjóð sem býður upp á mest lífsgæði í heiminum.

Við skulum gá að því að lokum að ef lífskjör versna á Íslandi munum við brátt sjá fram á landflótta fólks héðan. Kappsamir Íslendingar vilja búa hér ef haldast þau góðu lífskjör sem nú hafa skapast og þau miklu tækifæri sem blasa við á Íslandi.

Þið sem nú sitjið í ríkisstjórninni haldið um mikið fjöregg sem ykkur ber að fara vel með. Minnist þess að þið fenguð góðar kosningar og ykkur var falinn trúnaður. Farið vel með hann.