135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:40]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit nú eiginlega ekki hvort ég, aumur fjármálaráðherrann, á að hætta mér út í umræðu við þessa tvo þegar þeir takast á í þingsalnum, tveir helstu mælskumenn þingsins, hv. þm. Guðni Ágústsson og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Ég vil þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir ágæta og málefnalega ræðu. Hann fer auðvitað rétt með þegar hann lýsir hvernig málin hafa þróast síðustu 12 árin. Flest allt hefur gengið okkur í hag og það var auðvitað gaman fyrir okkur tvo að sitja saman í ríkisstjórn mestan hluta tímabilsins.

Varðandi það sem hv. þm. segir um framtíðina þá er hann auðvitað forustumaður í stjórnarandstöðunni og stjórnarandstaðan á að gagnrýna það sem stjórnin leggur fram. Hún á að vara við og benda okkur á það sem gæti verið veikt í okkar grunni og hvað gæti verið áhættusamt.

Varðandi fjárlagafrumvarpið hef ég sagt áður og mun segja aftur að það er í meginatriðum byggt upp eins og fjárlagafrumvörp síðustu ára. Það hefur byggt á fjárfestingaráætlunum síðustu ára þannig að hv. þingmaður og flokkur hans eiga stóran hlut að máli. Við verðum að hafa í huga þegar við horfum á áætlanirnar að gert er ráð fyrir að útgjöld þjóðarinnar dragist saman um ríflega 5% á þessu ári og spáð er að þau dragist saman um tæplega 5% á næsta ári.

Það er mesti samdráttur frá því á sjöunda áratugnum þegar síldin hvarf og þess vegna höfum við talið rétt að halda okkur í meginatriðum við þær áætlanir sem fyrir voru.