135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:13]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar og gera þau sjónarmið sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson flutti hér í gær að mínum og þau atriði sem koma fram í greindu nefndaráliti.

Við finnum hér fyrir skyldu sem okkur ber að sinna í samræmi við stjórnarskipunarlög, 41., 42. og 43. grein, en samkvæmt þeim ákvæðum er fjárveitingavaldið, sem er hjá þjóðkjörnum fulltrúum á Alþingi, ein mikilvægasta hornstoð og undirstaða stjórnkerfis okkar. Það er ætlast til þess að Alþingi gæti réttinda borgaranna með þeim hætti að ríkisvaldið leggi ekki óhæfilegar álögur á borgarana, að vel sé farið með ríkisfjármuni og nauðsynlegt eftirlit sé með því með hvaða hætti ríkisvaldið fer með þá fjármuni sem Alþingi samþykkir að veita til starfsemi ríkisins hverju sinni. Þetta er eins og ég sagði einn mikilvægasti hornsteinn hagsmunagæslu borgaranna sem Alþingi er falið að sinna. Spurningin er hvernig Alþingi fer með þetta vald og hvort vinnubrögð þingsins séu með þeim hætti að Alþingi megi og geti verið stolt af því hvernig þetta er gert.

Þess ber að geta og verður að undirstrika að þrátt fyrir stjórnarskrárbundin ákvæðin um að ekkert gjald megi greiða nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum þá er það samt gert í stórum stíl og stjórnvöld gera það í skjóli þess að aukin heimild verði veitt síðar af hálfu fjárveitingavaldsins, Alþingis. Þessi aðferð er röng og í raun í andstöðu við þau sjónarmið sem koma fram í stjórnarskránni, fjáraukalögin ættu í raun að koma fram áður en peningunum er eytt en ekki löngu eftir að þeim er eytt.

Síðan er annað að í mörgum tilvikum, eins t.d. varðandi Landspítalann, þá er öllum ljóst að fjárveitingar til þeirrar stofnunar eru mjög vanáætlaðar, þær eru ekki nægar, stofnunin getur ekki staðið undir eðlilegri þjónustu og þá verður að bregðast við. Ríkisvaldið virðist geta farið sínu fram vegna þess að það hefur reynslu af því að Alþingi samþykkir fjáraukalög þegar framkvæmdarvaldið hefur bæði af nauðsyn og geðþótta eytt peningum langt umfram þær heimildir sem ákveðnar hafa verið í fjárlögum.

Þegar fjárlagafrumvarpið er lagt fram stendur Alþingi líka frammi fyrir orðnum hlut að verulegu leyti. Samþykkt hafa verið lög, sem verður og ber að virða, sem hafa útgjöld í för með sér og auk þess hefur ríkisvaldið gert samninga við ýmsa aðila sem þarf líka að virða en Alþingi hefur þó möguleika á að skoða og gera breytingar á. Ég leyfi mér, til að stytta mál mitt, að vísa í því sambandi til þess sem kemur fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2006 sem hér var til umræðu þar sem umboðsmaður fjallar um þessi atriði með mjög glöggum hætti á bls. 23–26 í skýrslunni. Þar rekur hann að með því að fara í auknum mæli þá leið að gera sérstaka samninga við ákveðna aðila, þess vegna hagsmunaaðila, sé spurning hvort um einsleitni í stjórnarframkvæmd sé að ræða ef menn skilgreini fyrir fram hvaða þjónustu borgararnir þurfi eða Alþingi vill að þeim sé veitt, í stað þess að fara þá leið að verja ákveðnum fjármunum fyrir fram og jafnræðisreglu borgaranna sé þá ekki ávallt gætt sem skyldi.

Staðreynd málsins er því sú að þegar fjárlagafrumvarp er lagt fyrir Alþingi er rammi þess að mjög miklu leyti mótaður, meginhluti fjárlagafrumvarpsins hefur verið ákveðinn. Þó að ég bendi á þessa staðreynd vil ég ekki draga úr mikilvægi þess starfs sem Alþingi sinnir, mér finnst líka nauðsynlegt að víkja að þeirri þrotlausu vinnu sem fjárlaganefnd vinnur í sambandi við fjárlagagerð og ýmsar aðrar fastanefndir Alþingis sinna einnig. Hins vegar er spurning hvort ekki sé hægt að nota annað vinnulag, vinna þessa vinnu með öðrum hætti en nú er gert. Ákveðinn hluti vinnu við fjárlagagerð fer í skoðun á erindum og óskum um fjárveitingar frá einstaklingum og stofnunum þar sem um lágar fjárbeiðnir er venjulega að ræða. Það sem skiptir máli fyrir fjárveitingavaldið er að afgreiða þau erindi faglega en láta ekki geðþóttasjónarmið eða kunningsskap við umsækjendur eða flokksskírteini ráða því með hvaða hætti erindið er afgreitt.

Það sem mér finnst því brýnast er að fjárlaganefnd setji ákveðnar viðmiðunarreglur varðandi stuðning við einstaklinga og félög og feli starfsfólki þingsins að vinna faglega úr umsóknunum í samræmi við þær starfsreglur sem fjárlaganefnd mótar og taki þær síðan til skoðunar og lokaákvörðunar áður en tillögur nefndarinnar yrðu lagðar fyrir Alþingi. Það mundi líka fela í sér að aðrar fastanefndir Alþingis færu eftir þeim starfsreglum sem fjárlaganefnd ákvarðaði og mótaði tillögur sínar á. Sá háttur sem nú er hafður varðandi afgreiðslu þess fjölda erinda sem Alþingi berst frá einstaklingum og félögum um fjárstuðning við verkefni er að mínu viti gjörsamlega fráleitur, ómarkviss og ekki í samræmi við nútímavinnubrögð eða kröfu um skilvirk vinnubrögð.

Þegar ég sem nýliði á þingi kom að þessari vinnu gat ég ekki varist því að finnast þetta með nokkrum endemum og af því að hv. þm. Bjarni Harðarson vitnaði í ágæta sögu í ræðu sinni fyrir áliti 2. minni hluta í gær, þá datt mér í hug önnur saga einmitt í sambandi við þessar einstaklingsbundnu afgreiðslur sem Alþingi og fjárlaganefnd og fagnefndir hafa haft með að gera. Þar var um að ræða flokksbróður Bjarna Harðarsonar, að vísu frá síðustu öld, þingmann annaðhvort Norður- eða Suður-Múlasýslu, Pál Zóphóníasson, sem þá sat í ákveðinni nefnd sem hét álagningarnefnd eða hvort hún hét niðurjöfnunarnefnd útsvara. Þar skiptust menn svolítið í flokka með það hvort þeir vildu leggja hátt eða lágt á ákveðna einstaklinga og höfðu til þess ákveðið svigrúm og Páll Zóphóníasson þótti almennt vera harðdrægur mjög við að leggja á há gjöld. Einhvern tíma var það svo í ákveðnu tilviki þar sem ákveðinn einstaklingur kom til að þá brá svo við að Páll lagði til að lögð yrðu mjög lág gjöld á þann einstakling — ég reikna með að hv. þm. Bjarni Harðarson þekki þessa sögu um flokksbróður sinn. Páll var náttúrlega spurður að því af öðrum nefndarmönnum hvernig á því stæði að svo brygði við því að þetta væri gjörsamlega úr takti við það sem Páll Zóphóníasson, hv. þingmaður á þeim tíma, hafði að öðru leyti við aðrar afgreiðslur. Hann var spurður: Þekkirðu þennan mann sérstaklega, er hann í Framsóknarflokknum eða er eitthvað annað sem kemur til? Vegna þess að þá voru geðþóttaákvarðanir algengari en þær eru í dag. Þetta endaði með því eftir því sem lengra var gengið á Pál að hann svaraði að hann þekkti ekki manninn en hins vegar hefði hann einu sinni þekkt hrút sem hann hefði átt.

Það er nú svo að hvort heldur menn þekkja manninn eða flokksskírteini er til að dreifa þá verða menn að átta sig á að nú á tímum verður að breyta svolítið um vinnulag miðað við það sem áður var, sem sagt í lok síðustu aldar, og menn eiga að hverfa frá einstaklingsbundnum geðþóttaákvörðunum og afgreiða mál faglega, ekki á grundvelli einstaklinga, flokksskírteina, kunningsskapar eða annars þess háttar.

Ég tel að ef farið yrði í að móta ákveðnar starfsreglur fyrir fjárlaganefnd um það hvernig og með hvaða hætti ráðstafa ætti faglega og ganga frá hinum einstaklingsbundnu umsóknum á grundvelli almennra viðmiðana þá yrði starfið einfaldara og það væri líka betur staðið að þeim málum.

Ég þekki ekki störf fjárlaganefndar út í hörgul en ég ætla að skipuleggja mætti betur störf nefndarinnar. Ég geri mér grein fyrir því að sú fjárlaganefnd sem nú hefur starfað tekur við ákveðnum arfi, hún tekur við ákveðnum vinnubrögðum og hefur kannski ekki haft tíma til að móta sér skýrar starfsreglur en hefur til þess möguleika í byrjun nýs árs að taka hlutina öðruvísi. Ég tel að eitt af því sem Alþingi Íslendinga þarf að taka til verulega mikillar endurskoðunar sé með hvaða hætti haga á fjárlagavinnunni í framtíðinni, hvernig menn vilja standa að hlutunum þannig að afgreiðslan sé sem skilvirkust. Hvernig fjárveitingavaldið geti staðið að málum þannig að framkvæmdarvaldið skammti sér ekki rétt um of og geri ekki tillögur um of til þess að fara með mál og Alþingi standi jafnan frammi fyrir orðnum hlut og geti í raun ekki staðið á móti því sem gerst hefur. Ég tel að í viðmiðun varðandi störf og breytingar og nýtt vinnulag hjá fjárlaganefnd hljóti þetta að vera eitt af þeim meginatriðum sem taka þarf til skoðunar.

Ég tek undir með því sem segir í greinargerð 2. minni hluta fjárlaganefndar þar sem hv. þm. Bjarni Harðarson talar um að yfirspennan sé mjög mikil og ríkissjóður ætli ekki að hjálpa til. (Gripið fram í.) Þetta sagði hann í ræðu sinni í gær ef ég man rétt. Ég tek undir það, ég tel að þetta sé raun það sem um er að ræða. Það hefur orðið gríðarleg aukning í ríkisútgjöldum á undanförnum árum og fjárlögin eru nú með sama marki brennd. Mig minnir að hv. þm. Bjarni Harðarson hafi raunar talað um að hér væri um verðbólgufjárlög að ræða eða þenslufjárlög og ég tek undir með honum hvað það varðar. Við erum að tala um ríkisútgjöld sem voru ákveðin með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2007 alls 367 milljarðar en eru áætluð samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2008 eins og það var lagt fram, alls 430 milljarðar. Það er hækkun um 63 milljarða í útgjöldum ársins. Þetta er langt umfram öll verðbólguviðmið. Þetta er umfram þau viðmið sem Seðlabanki Íslands setur sér og þetta er langt umfram það sem ásættanlegt er að útgjöld ríkisins þenjist út milli ára.

Það eru ekki aðeins ríkisútgjöldin sem aukast, skattheimta ríkisins, tekjur ríkisins aukast enn meir. Samkvæmt fjárlögum ársins 2007 voru tekjur ríkisins áætlaðar 376 milljarðar en samkvæmt því fjárlagafrumvarpi sem við fjöllum um nú eru tekjurnar áætlaðar 461 milljarður eða hækkun tekna ríkissjóðs um 85 milljarða.

Ekki nóg með það. Í gær bárust okkur þingmönnum annars vegar Hagfréttir og hins vegar vefrit fjármálaráðuneytisins. Í vefriti fjármálaráðuneytisins kemur fram að innheimtar tekjur ríkissjóðs námu 354 milljörðum kr. á fyrstu tíu mánuðum ársins, þ.e. ársins 2007, það er 45,6 milljarða kr. aukning frá sama tíma í fyrra eða 13%. Það er 13% aukning á tekjum ríkisins, á skattlagningu ríkisins á einstaklinga þegar menn eru að setja sér verðbólgumarkmið sem eru svo allt, allt önnur og Seðlabankinn hamast við að hækka stýrivexti til þess að halda því. Á sama tíma og þessi góða greiðsluafkoma ríkissjóðs er opinberuð kemur í ljós, og er sagt frá því í Hagfréttum, að lækkun á virði íslenskra félaga í Kauphöll Ísland frá 1. október sl. sé um 510 milljarðar, sem hafa í raun horfið út í buskann. Á sama tíma og ríkissjóður getur vel við unað, er að fá 43 milljarða í viðbótartekjur í sinn hlut, hefur eignarhluti einstaklinga og félaga, verðmæti sem þeir áttu í byrjun október, rýrnað yfir 500 milljarða.

Þá er náttúrlega eðlilegt að menn spyrji: Í hvers konar ástand erum við komin? Er hætta á að þetta verði viðvarandi, er líklegt að þessi verðrýrnun haldi áfram? Að sjálfsögðu verður ríkisvaldið að skoða það og bregðast við og hafa tiltækar ráðstafanir ef um slíkt er að ræða. Ekkert slíkt er á döfinni hjá ríkisstjórninni. Hér er enn haldið áfram og reynt er að gera sem allra mest til að ná sem allra mestum tekjum í ríkissjóð og hvergi slakað á klónni. Og tímans vegna, af því að liðið er á umræðuna, vil ég stytta mál mitt en ég ætla að leyfa mér að nefna nokkur atriði sem mér finnst skipta gríðarlega miklu máli í sambandi við tekjuöflun ríkisins.

Í fyrsta lagi hefur olíuverð hækkað gríðarlega á heimsmörkuðum á undanförnum mánuðum. Taldar eru allar líkur á því að olíuverð haldist hátt í nokkurn tíma enn. Það þýðir að bólgnasti olíufurstinn hér á landi er ríkissjóður vegna þess að stór hluti af þeim álögum sem eru á hvern bensínlítra eða dísilolíulítra rennur í ríkissjóð. Þá er spurningin sú: Hefur ríkisstjórnin einhverjar áætlanir um að koma til móts við fólkið í landinu með því að lækka álögur sínar til þess m.a. að hamla gegn verðbólgunni til að koma í veg fyrir aukningu og hækkun á verðtryggðum lánum? Eða á að halda og kreppa að og láta einstaklingana gjalda fyrir það í góðæri eins og við búum við þar sem tekjur ríkissjóðs hafa aukist langt umfram það sem áætlað var? Má hvergi slaka á klónni? Er það þannig, ágætu sjálfstæðismenn sem standið að þessu fjárlagafrumvarpi og þeim ósóma sem ríkt hefur í ríkisfjármálum, þ.e. að auka skattheimtuna jafnt og þétt þannig að við eigum met í öllum OECD-löndum frá því að Sjálfstæðisflokkurinn kom að stjórn ríkisfjármála og met í Evrópu hvað varðar aukna skattheimtu, á að halda svona áfram og er hvergi hægt að slaka á?

Í annan stað vil ég nefna stimpilgjald. Talað hefur verið um það í lengri tíma að stimpilgjald sé óréttlátur skattur. Hvaða þýðingu hefur stimpilgjaldið? Það hefur þá þýðingu að það gerir einstaklingum erfiðara fyrir að skipta um lánastofnun, það dregur úr samkeppni á lánamarkaðnum. Hvernig á að fara að og hvaða tillögur hefur ríkisstjórnin uppi? Hæstv. forsætisráðherra hefur orðað það svo opinberlega að afnema beri þennan ósanngjarna skatt, stimpilgjald, en bara ekki núna. Hvenær þá? Ef ekki er möguleiki eða forsenda til þess að afnema stimpilgjald þegar góðæri ríkir, þegar miklar umframtekjur eru hjá ríkissjóði, hvenær er það þá hægt? Ég tel mjög mikilvægt og nauðsynlegt að fjárlaganefnd skoði milli umræðna að taka á þessu atriði og fella stimpilgjaldið niður sem tekjur í viðmiðun fjárlaga vegna næsta árs, vegna þess að með því að fella stimpilgjaldið niður aukum við í raun samkeppnishæfni íslenska fjármálakerfisins. Við gerum það auðveldara fyrir íslenska neytendur að velja þá kosti sem hagkvæmastir eru fyrir þá á lánamarkaði. Með því að halda í stimpilgjaldið erum við í raun að þurrka út samkeppni og höfuðatriðið í því máli að koma stimpilgjaldinu í burt er að geta aukið og haldið samkeppninni sem bestri.

Í þriðja lagi vil ég nefna hækkun skattleysismarka. Það að láta skattleysismörkin ekki fylgja verð- og launaþróun í landinu hefur gert það að verkum að hér hefur skapast mikill og viðvarandi velferðarhalli sem hefur valdið því að það fólk sem lægstar hefur tekjurnar hefur lent í fátæktargildru. Það hefur valdið í því að aldraðir og öryrkjar margir hverjir hafa ekki nóg fyrir sig að leggja og eiga ekki fyrir nauðþurftum. Við sem ríkasta þjóðfélag í heimi getum ekki sætt okkur við að okkar minnstu bræður geti ekki notið mannsæmandi lífskjara. Það er gjörsamlega útilokað að þannig sé staðið að málum. Ein virkasta leiðin og sú leið sem gæti orðið til þess að leysa hugsanlega þá kjaradeilu sem virðist í uppsiglingu er að hækka skattleysismörk í samræmi við það sem við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til, þ.e. að hækka skattleysismörk upp í 150 þús. kr. tekjur á mánuði sem yrðu þá án skatta.

Þessi atriði finnst mér nauðsynlegast að nefna varðandi það á hvern hátt dregið verði úr ofursköttun ríkisins sem minn gamli flokkur Sjálfstæðisflokkurinn hefur því miður staðið að og ég er hræddur um að ýmsir fyrri forustumenn flokksins mundu verða lítt sælir með að sjá hvernig arftakar í forustu flokksins nú standa að því að þenja út ríkisbáknið eins og mest verða má. Það má ætla að margir hverjir líti þannig á að helst beri að líta til þess að hjálpræðið komi frá ríkinu í stað þess að menn treysti einstaklingunum til að leysa þau vandamál sem við er að glíma hverju sinni.

Varðandi útgjaldaliði fjárlaga verð ég tímans vegna að fara hratt yfir sögu en ég vil þó vekja athygli á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi spyr ég: Hvernig í ósköpunum stendur á því að við verjum tæplega hálfum milljarði til útgjalda vegna varnarmála þegar ekki hefur verið með einum eða neinum hætti sýnt fram á eða skýrt að einhver vá steðji að okkur? Er eitthvað sem gerir það að verkum eða kallar á að við höfum sérstakan varnarviðbúnað í landinu miðað við þá fjölþjóðlegu samninga sem við erum með í sambandi við varnarmál?

Þar til viðbótar vil ég nefna t.d. sendiráðavæðinguna, en hún er liður í kosningabaráttu Íslands til öryggisráðsins, þar sem við erum að eyða 2 milljörðum í sendiráð, í mörgum tilvikum gjörsamlega ónauðsynleg útgjöld. Hækkun til þróunarmála, sem er verulega mikil, 537 milljónir, sem er líka liður í þessari dýru kosningabaráttu til öryggisráðsins, er líka athugunarverð m.a. þegar ekki er hægt að standa að nauðsynlegum hækkunum í velferðarkerfinu fyrir okkar minnstu bræður. (SVÓ: Og systur.) Og systur, þá sem minnst hafa fyrir sig að leggja þannig að við kyngreinum þetta ekki, hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, enda engin ástæða til vegna þess að mannréttindi eiga að gilda fyrir alla. (SVÓ: Þá segir maður ekki bræður.) En við tölum um mannréttindi og það gildir fyrir alla þjóðfélagsborgara.

En út af þessum ummælum og af því að hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir kallaði hér fram í þá ætla ég að benda á einn hlut og það er að fjárveitingar til velferðarmála hækka ekki í samræmi við fólksfjölgun en á sama tíma hækkar þróunarsamvinnan til útlanda um 35%. Alls eru lagðar 770 milljónir í þessi sérstöku gæluverkefni hæstv. utanríkisráðherra eða mun hærri upphæð í krónum talið en sú sem lögð er til að hækka barnabætur og vaxtabætur til almennings á Íslandi. Spurningin er hvort Samfylkingunni finnist eðlilegt að staðið sé þannig að málum.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, ítreka að frá því að Sjálfstæðisflokkurinn kom að stjórn efnahagsmála hefur hann bæði slegið Evrópumet og met innan OECD varðandi hækkun skattlagningar. Mér finnst mikilvægast að hlutdeild ríkisins minnki. Í því góðæri sem hefur ríkt hefur verið gríðarlega mikið svigrúm til að lagfæra velferðarhallann, hækka skattleysismörk, greiða öryrkjum og öldruðum bætur sem gæfi þeim færi á að lifa mannsæmandi lífi en velferðarhallinn er ekki lagfærður. Það verður hins vegar að halda uppi velferðarkerfi atvinnuveganna, sem ætti að afnema, en velferðarhallinn er ekki lagfærður fyrir fólkið. Þrátt fyrir stóraukin ríkisútgjöld vegna gæluverkefna ríkisstjórnarinnar eru fólkinu í landinu send þau skilaboð að það sé ekkert afgangs til að leysa úr brýnum vandamálum þeirra sem lökust hafa kjörin.

Þessi fjárlög bera þess ekki vitni að um frjálslynda umbótastjórn sé að ræða. Fjárlögin sýna að hér er stjórnlynd stjórn sem telur bjargráðin vera helst fólgin í því að ríkið leysi vandann og aukin skattheimta og aukin hlutdeild ríkisins sé helsta bjargráðið. Þar greinir á milli frjálslyndra viðhorfa og stjórnlyndra viðhorfa. Það er stjórnlynd ríkisstjórn sem stendur að fjárlögum og fjárlagatillögum sem þessum en frjálslynd viðhorf miða að því að draga úr þeirri hlutdeild, draga úr skattheimtu og draga úr útgjöldum ríkisins.