135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:45]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að undanfarin ár hefði verið slegið met í skattahækkunum. Nú hafa skattar á hagnað fyrirtækja lækkað úr 45%, í 33% og að lokum niður í 18%. Ég ætla að vona að hv. þingmaður fallist á það með mér að 18% séu minna heldur en 45%. Tekjur ríkissjóðs af sama skatti hafa margfaldast. Ég man ekki alveg töluna, hvort þær hafa sjöfaldast eða eitthvað svoleiðis. Nú spyr ég hv. þingmann: Er það skattahækkun að fyrirtæki borgi miklu fleiri krónur heldur en áður, miklu fleiri? Eða er þetta skattalækkun, þar sem prósentan hefur greinilega lækkað?

Sama gerðist með skatt á söluhagnað. Hann var 47% áður en fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp og tekjur ríkissjóðs voru nánast engar af sölu fasteigna og hlutabréfa, eða söluhagnaði yfirleitt. Hann var lækkaður niður í 10% og tekjur ríkissjóðs af söluhagnaði eru umtalsverðar. Þá vaknar aftur spurningin: Er þetta skattahækkun eða skattalækkun? Það er ekki nóg að líta á það hvað skattarnir hafa hækkað í krónutölu. Þeir geta nefnilega hækkað í krónum vegna þess að kakan stækkaði svo ofboðslega mikið við að álögum á hana var létt. Hrossið fer á skeið þegar álögunum er velt af því. Áður var það að sligast undir byrðinni. Nú er búið að létta byrðina af hrossinu og þá tekur það á sprett, er bara á skeiði. En þótt maður tali bændamál hérna, sem ég veit að fyrrv. landbúnaðarráðherra þekkir, hv. þingmaður, þá vil ég fá á hreint hvort þetta sé skattalækkun eða skattahækkun.