135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:53]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að nota tækifærið og þakka enn á ný nefndarmönnum í fjárlaganefnd. Sérstakar þakkir vil ég færa formanni og varaformanni nefndarinnar fyrir þeirra ágæta starf og eins vil ég þakka sérstaklega starfsmönnum nefndarinnar sem á undanförnum vikum og mánuðum hafa unnið algert þrekvirki við alla þá gagnaöflun og framsetningu á gögnum sem við í fjárlaganefndinni höfum fengið að vinna úr.

Í þessari umræðu sem hefur staðið í hátt í tvo daga hafa komið fram flest meginatriði þessa fjárlagafrumvarps og bæði formaður og varaformaður nefndarinnar fóru ítarlega yfir frumvarpið. Það sem ég vildi gera að umtalsefni er hin sterka staða ríkissjóðs. Íslenski ríkissjóðurinn ber af flestum öðrum ríkissjóðum í Evrópu hvað varðar styrkleika. Hið opinbera á Íslandi hefur náð að greiða niður skuldir sínar og styrkja stöðu sína. Það er áhugavert að á evrusvæðinu og reyndar í OECD er að meðaltali talið að skuldir hins opinbera nemi um það bil 50% af vergri landsframleiðslu á meðan sambærileg tala hjá okkur Íslendingum er um 10%. Það sýnir að okkur hefur miðað ótrúlega vel og þeir sem muna liðna tíð í íslenskum stjórnmálum þekkja hversu illa við stóðum. Það er ekki nema rétt tæplega 20 ár frá því að þáverandi forsætisráðherra orðaði það í alvörunni að yfir okkur vofði þjóðargjaldþrot, að við gætum einfaldlega ekki meira og þeir Íslendingar sem tóku þátt í alþjóðlegu samstarfi um efnahagsmál máttu sitja undir bröndurum eins og þessum: að í neðra væri kokkurinn frá Englandi, lögreglumaðurinn frá Þýskalandi og fjármálaráðherrann frá Íslandi.

Ég er nokkuð viss um að þeir fjármálaráðherrar sem hafa gegnt embætti á undanförnum hálfum öðrum áratug eða svo geta verið afskaplega stoltir yfir þeirri niðurstöðu sem náðst hefur í fjárlögunum og við fjárlagagerðina. Þegar við horfum til framtíðar eru gríðarlega mikil sóknarfæri fólgin í því fyrir íslenskt samfélag hversu vel ríkissjóður stendur. Í því samhengi ber að hafa í huga stöðu íslenska lífeyrissjóðakerfisins sem einnig er mjög sterkt og ber af allflestum öðrum lífeyrissjóðakerfum í Evrópu, nema kannski einna helst hinu svissneska.

En það er vandi að stýra í góðæri. Það er ekki hægt að neita því að þegar litið er til útgjaldastigsins þá er augljóst að við erum að þenja ríkisútgjöld að mörkum þess sem hægt er að sætta sig við. Ég hef varið þetta fyrir sjálfum mér þannig að ríkisstjórnin hafi staðið frammi fyrir þeim vanda að þurfa að skera niður þorskafla um 30% sem er gríðarlegt högg fyrir marga íbúa þessa lands og kemur hvað harðast niður á þær byggðir sem eru veikastar. Því hefur verið pólitísk samstaða um að reyna að grípa til aðgerða í gegnum ríkissjóð til að styrkja byggðirnar. Á sama tíma stöndum við frammi fyrir þenslu á ákveðnum svæðum á landinu. Samt verðum við að horfast í augu við að stærstur hlutur ríkisútgjaldanna fer á þau svæði og þá einkum og sér í lagi til höfuðborgarsvæðisins. Hagstjórnin er því býsna flókin við þessar aðstæður.

Á sama tíma eykur það flækjustigið, ég hef gert það að umtalsefni áður, hversu illa virðist ganga fyrir okkur að spá fyrir um þróun efnahagsmála, spá fyrir um tekjur ríkissjóðs. Við upphaf þessarar fjárlagagerðar lá fyrir að gert væri ráð fyrir um það bil 0,7% hagvexti á þessu ári. Við þá tölu var miðað þegar menn áætluðu hversu mikið ríkið ætlaði sér að eyða og til hvaða aðgerða það hygðist grípa varðandi hagstjórn. Mér segir svo hugur að þjóðarframleiðsla muni vaxa ívið meira en 0,7% og fyrir því hafa verið færð ágæt rök, bæði í þingsal og eins úti í þjóðfélaginu.

Skuldastaða hins opinbera er góð en menn hafa haft áhyggjur af skuldastöðu þjóðarbúsins, þ.e. einstaklinga og fyrirtækja erlendis, sem birtist í viðskiptahallanum. Það er rétt að hafa augun á viðskiptahallanum en ég tel að menn verði að gera sér grein fyrir því að það er stór munur á viðskiptahalla sem orðinn er til vegna þess að hið opinbera grípur til aðgerða, vegna þess að hið opinbera tekur lán erlendis, annars vegar og hins vegar þegar einstaklingar og fyrirtæki taka lán vegna þess að bak við slíkar ákvarðanir eru annaðhvort ákvörðun um að flýta neyslu, ef svo má að orði komast, með lántöku eða að ráðast í fjárfestingar erlendis hér heima með erlendu lánsfé. Það eru þá bankastofnanir, innlendar eða erlendar sem taka ákvörðun um að veita lán til slíkra framkvæmda eða til neyslunnar. Það er mat þeirra aðila að þeir fái sína peninga til baka. Þetta er allt önnur staða heldur en þegar ríkið tekur óhóflega mikil lán til að fjármagna þá samneyslu sem ekki er innstæða fyrir miðað við tekjur ríkisins.

Í öðru lagi, hvað varðar viðskiptahallann, hafa verið færð fyrir því rök að sú aðferðafræði sem við notum til að meta viðskiptahallann, hversu hár hann er, sé nokkuð broguð. Menn hafa t.d. áhyggjur af því að þegar fært er í bókhaldið að t.d. fyrirtæki eða einstaklingar kaupi fyrirtæki erlendis þá sé verðmæti hlutabréfanna fært á nafnvirði en það þarf ekki að endurspegla það verð sem greitt er fyrir fyrirtækið. Svo við tökum sem dæmi þá getum við hugsað okkur að fyrirtæki sé keypt á einn milljarð og tekið lán fyrir þeim kaupum erlendis. Nafnvirði hlutabréfanna kann að vera 500 millj. en heildarverðmætið milljarður. Þá bókast það í þjóðarreikningana sem hálfur milljarður í nettóskuldaaukningu þótt á bak við þann hálfa milljarð séu full verðmæti. Þetta kann að skekkja það hvernig við mælum viðskiptahallann. Hið sama gildir um markaðsbréf sem t.d. lífeyrissjóðirnir kaupa. Þau eru færð á því verði sem sjóðirnir kaupa bréfin og þar er ekki tekið tillit til þeirrar hækkunar sem getur orðið á bréfunum. Auðvitað geta þessi bréf lækkað en þessi aðferð getur myndað heilmikla skekkju. Þetta er einn hlutur sem menn verða að hafa augun á þegar þeir reyna að meta hættuna af þeim viðskiptahalla sem við stöndum frammi fyrir.

Ég vildi einnig gera að umræðuefni umræðuna um fjárlög. Ég verð að segja að fyrir mig, nýjan þingmann, er mjög áhugavert að fylgjast í fyrsta sinn með umræðum um fjárlög í þinginu. Ég tel að við eigum að nota tækifærið nú þegar fjallað verður um breytingar á þingsköpum til að ræða sérstaklega um hvernig fjárlagaumræðan fer fram á þingi. Það hefur verið rætt nokkuð ítarlega að ástæða sé til að skoða vinnubrögð og verkferla fjárlaganefndar. En ég tel að við eigum allt eins og jafnvel enn frekar að skoða hvernig við ræðum fjárlögin í þingsal.

Ég verð að segja að ég hef saknað þess hversu lítið ráðherrar hafa verið í þingsalnum þótt ég taki undir þá skoðun hv. þm. Kristjáns Júlíussonar að að sjálfsögðu beri þingið ábyrgðina á fjárlagagerðinni. En ég teldi t.d. eðlilegt að við 1. umr. fjárlaga kæmu ráðherrar í þingið og hver og einn þeirra gerði t.d. grein fyrir sínum málaflokki í um 15 mínútna ræðu þannig að þingmenn hefðu tækifæri til að spyrja þann ráðherra úr og fá nánari skýringar á þeirri stefnumótun sem viðkomandi ráðherra hefur lagt upp í tillögu ríkisstjórnarinnar í sínum málaflokki. Ég held að það færi vel á því og að það yrði miklu opnari og líflegri umræða heldur en að ræðumenn komi upp og haldi eins til tveggja tíma langar ræður þar sem farið er yfir fjárlögin öll í heild sinni. Þær ræður eru oft og tíðum innihaldsríkar og ágætar ræður en það að eiga að svara slíkum ræðum í tveggja mínútna andsvari á eftir er algerlega vonlaust. Síðan gæti ég séð fyrir mér að í 2. umr. fjárlaga stæðu formenn viðkomandi nefnda fyrir svörum og skýrðu stefnu nefndar sinnar í viðkomandi málaflokki.

Ég kalla eftir meiri umræðu, að hún verði snarpari og markvissari vegna þess að það eru engin lög jafnmikilvæg og fjárlögin. Þetta eru þau lög sem kveðið er á um í stjórnarskrá og mér finnst satt best að segja ekki boðlegt að bjóða upp á þá umræðu sem hér hefur farið fram undanfarna tvo sólarhringa. Það er fátt í þingsalnum, ráðherrar fjarri, margt ágætt sagt og margt efnislega mikilvægt en lítil umræða. Þess vegna legg ég til og vil gera að lokaorðum mínum að í þeirri umræðu sem fer fram um þingsköpin verði sérstaklega litið til þess hvernig umræða um fjárlagafrumvarpið fer fram.