135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:04]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir margt sem fram kom í ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar. Þó voru þar atriði sem ég ekki gat skilið, ég veit ekki hvort aðrir í salnum gerðu það, þar sem vikið var að því að útgjöld ríkisins hefðu aukist mjög mikið. Ég gat ekki betur heyrt en hv. þm. Illugi Gunnarsson væri vel meðvitaður um þann vanda en hann nefndi reyndar í því sambandi að stór hluti af þeirri aukningu væri vegna niðurskurðar á þorskkvóta. Mér telst til að það sé í mesta lagi 10%, að í mesta lagi megi tengja tíunda hluti útgjaldaaukningar í ríkisútgjöldum beint við niðurskurð á þorskkvóta og ég er sammála því mati sem kom fram hjá hv. þingmanni að megnið af aukningunni kemur niður á mesta þenslusvæðinu. Ég gerði mér aftur á móti ekki grein fyrir því hvort hv. þingmanni finnist að þannig eigi það að vera eða hvort hann er sammála því sem ég hef talað fyrir í þessum ræðustól. Ég tel að þetta sé einfaldlega rangt, þetta sé ekki eins og það eigi að vera. Ég tel að við séum með of hátt stemmd fjárlög sem dæla of miklu fé inn á mesta þenslusvæði landsins á miklum þenslutímum. Ég spyr hvort einhver rök finnist fyrir því að leggja fram fjárlög eins og þau sem meiri hluti fjárlaganefndar stendur að.

Ég hef grúskað í umræður hagfræðinga um fjárlögin og finn hvergi neina sem mæla því bót að ráðslagið sé með þessum hætti. Mér leikur forvitni á að vita hvort hv. þm. Illugi Gunnarsson hefur fundið einhvern þann fræðilega grundvöll sem réttlætir þau fjárlög sem hér eru til umræðu.