135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:07]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að einungis hluti af útgjaldaaukningunni er sérstaklega vegna mótvægisaðgerðanna (Gripið fram í.) það er þó sá hluti. Síðan bætast við stefnumarkandi útgjöld ríkisstjórnarinnar, eins og það er kallað, þ.e. aukin útgjöld vegna samkomulags við eldri borgara og öryrkja hvað því viðvíkur að draga úr tekjutengingum. Aukin útgjöld eru til menntamála, aukin útgjöld vegna hjúkrunarheimila og sjúkrahúsa, sérstaklega vegna Landspítalans. Verið er að hækka útgjöld til Landspítalans, verið er að hækka útgjöld til sjúkrahúsanna í kraganum o.s.frv. Allt þetta þekkir þingmaðurinn mjög vel.

Við erum sammála um að eitt af verkefnum fjárlaganefndar var einmitt að reyna að stýra hluta af útgjöldunum yfir á þau svæði þar sem erfiðast hefur gengið. Ég held að við getum báðir verið sammála um að þar var margt ágætlega gert. Við komumst þó ekki undan þeirri staðreynd að stærsti hluti af starfseminni er á Reykjavíkursvæðinu. Það er eðlilegt. Það er varla hægt að sjá það öðruvísi fyrir sér hvað varðar t.d. ráðuneyti, sjúkrahús og aðra lykilstarfsemi sem fer fram á því svæði. Það er því eðlilegt að fjármagnið renni hingað. En ég fullyrði að ríkisstjórnin vill grípa til þeirra aðgerða sem hægt er til að sporna gegn þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í byggðamálum. Fyrir því eru þó ákveðin takmörk, við vitum að þó að menn vilji setja peninga inn á þau svæði hefur það aftur margföldunaráhrif inn á höfuðborgarsvæðið þannig að þetta er flókið mál.

Ég tel að niðurstaðan sé sú að ekki verði lengra gengið í útgjaldastiginu, við séum búin að hækka útgjaldastigið eins og hægt er að verja. Ég treysti mér alla vega ekki til að styðja að útgjöld verði aukin umfram það sem nú er gert. Ég vænti þess að á næstu árum munum við sjá árangur af því starfi sem nú er lagt upp með í heilbrigðiskerfinu sem leiðir til þess að útgjöld til heilbrigðismála munu hætta að vaxa jafnmikið og raunin hefur verið á undanförnum árum.