135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:09]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg fallist á það sjónarmið hv. þingmanns að í fjárlagafrumvarpinu komi fram ákveðinn vilji til þess að koma ýmsum byggðarlögum til aðstoðar. Þeim vilja má vissulega finna stað í ýmsum atriðum í fjárlagafrumvarpinu en víða hefði mátt taka sköruglegar á.

Við upphaf þeirrar setningar hélt ég að hv. þm. Illugi Gunnarsson ætlaði að halda því fram að þar kæmi fram vilji ríkisstjórnarinnar til að halda aftur af ríkisútgjöldum almennt. Ég hef nefnilega ekki séð þann vilja. Ég hef ekki séð að nein tilraun sé gerð til þess að hamla ríkisútgjöldum. Ég sé reyndar engin sólarmerki í því sem nú er verið að gera í heilbrigðismálum sem muni á einhvern hátt stuðla að því að það dragi úr þeirri kerfislægu aukningu sem þar er á útgjöldum.

Ég sé einfaldlega hvergi nein merki um ráðdeild, sparnað og aðhald í ríkisútgjöldunum, enda skulu menn taka eftir því, sem ég hef áður haldið fram í þessum ræðustól, að hækkun ríkisútgjalda er nú til muna meiri milli ára. Það verður ekki nema að mjög litlu leyti rakið til þeirra atriða sem hv. þingmaður nefndi hér. Má þar nefna næsta handahófskenndar tilfærslur á verkefnum innan Stjórnarráðsins og ýmislegt sem gert er í flaustri og flýti.

Ég spyr hv. þingmann, frú forseti, hvort hann sjái merki ráðdeildar og sparsemi, sem þjóðarbúið þarf einmitt á að halda, í ríkisútgjöldum að þessu sinni, hvort hann sjái þau merki í störfum ríkisstjórnarinnar og fjárlagafrumvarpinu sem hér liggur fyrir.