135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:13]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mikil einföldun, og í rauninni undarlegt, að hv. þm. Illugi Gunnarsson haldi að hægt verði að minnka útgjöld til heilbrigðiskerfisins og heilbrigðismála. Sannleikurinn er náttúrlega sá þegar við horfum fram veginn að fleiri Íslendingar, hærra hlutfall, verða eldri á næstu árum og áratugum og því munu útgjöld til heilbrigðis- og öldrunarmála aukast.

Kannski höfum við í þinginu oft og tíðum ekki viðurkennt hve heilbrigðiskerfið þarf mikið þó að gríðarlegir peningar fari í það og þó að við eigum eitt besta heilbrigðiskerfi í heiminum. Ég er sannfærður um að það er mikilvægt að fara yfir þessi mál, hagræða og skoða hvernig við getum sparað í kerfinu. En útgjöld munu að mínu mati aukast vegna þessa þáttar sem ég nefni.

Sjávarbyggðirnar hafa orðið illa úti vegna niðurskurðar á þorskkvóta og ríkisstjórnin fór í mótvægisaðgerðir sem ekki skipta þau fyrirtæki sem urðu fyrir áfallinu mjög miklu, 15–20 milljarðar voru teknir á einu bretti út af efnahagsreikningi sjávarútvegsins. Ég vil í þessu sambandi spyrja hv. þingmann sem hélt málefnalega ræðu og minntist á stöðu landsbyggðar, höfuðborgarsvæðis og þenslu — ég hef spurt marga hv. þingmenn að því sama í dag — hvort hann telji að við núverandi aðstæður eigi að fella auðlindagjaldið brott. Ég vil að auki spyrja hann hvort ekki þurfi að fara yfir öll auðlindamál á Íslandi þannig að jafnræði sé á milli auðlinda hvað snertir gjald til ríkisins.