135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:20]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar það gjald sem með röngu var sett á sjávarútveginn, að mínu mati, þá verð ég að vísa enn og aftur til þess samkomulags sem fólst í þeirri lagasetningu sem gekk fram í þinginu. Ég fagnaði og fagna enn þeirri lækkun gjaldsins sem nú þegar hefur orðið. Ég tel að því miður sé það bara ekki pólitískt raunhæft að ætla að það gjald verði lækkað frekar að svo komnu máli. Komi fram slíkur möguleiki í þinginu er sjálfsagt að skoða það. En ég tel að þetta sé sú niðurstaða sem við verðum að búa við um sinn.

Hins vegar eru auðvitað fleiri leiðir sem við höfum til að hjálpa til í sjávarútveginum. Menn hafa reynt að gera það með því að styðja við innviði samfélagsins á þessum stöðum þar sem illa hefur gengið. Það er ekki bara að erfitt sé að halda við byggð vegna þess að illa gangi í sjávarútvegi heldur skipta þar aðrir þættir sem snúa að menntamálum, samgöngum og félagsmálaþættinum miklu máli.

Hvað varðar heilbrigðiskerfið þá er það skoðun mín eins og hv. þingmanns, að við eigum að veita sem besta þjónustu á sem hagstæðustu verði til sem flestra. Það er um það pólitísk samstaða á Íslandi að þjónustan eigi að vera því sem næst ókeypis, þ.e. að enginn eigi að þurfa frá að hverfa vegna þess að viðkomandi hafi ekki efni til. Þetta er erfitt verkefni og gríðarlega stórt.

Framsóknarflokkurinn stýrði þessu ráðuneyti til langs tíma, í ein 12 ár og ber heilmikla ábyrgð á því ástandi sem nú er, (Gripið fram í.) bæði á því sem vel hefur verið gert og því sem betur hefði mátt fara. Nú fer Sjálfstæðisflokkurinn með forustu í þessum málum. Það hafa komið fram mjög áhugaverðar hugmyndir hjá heilbrigðisráðherra um hvernig betur megi nýta þá aðstöðu sem til er í landinu til að ná fram hagræðingu og með því áfram tryggt að á Íslandi verði besta heilbrigðisþjónusta í heimi.