135. löggjafarþing — 34. fundur,  30. nóv. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:40]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það er komið að lokum fjárlagaumræðu við 2. umr. um fjárlög. Umræðan hefur verið bæði ítarleg og efnismikil sem undirstrikar það hversu stóran málaflokk er hér um að ræða, eitt stærsta mál sem Alþingi fjallar um á hverjum tíma, fjárlög ríkisins.

3. umr. er eftir og það er alveg ljóst að enn eru allmargir málaflokkar bæði á vegum gjalda og tekna ríkissjóðs opnir og óafgreiddir fyrir 3. umr. Ég legg áherslu á stöðu heilbrigðisþjónustunnar, elli- og hjúkrunarheimila svo dæmi sé tekið, en það er fjarri því að á þeim hafi verið tekið eins og þörf er á en hefur reyndar verið boðað að verði skoðað á milli 2. og 3. umr.

Í lokin vil ég einnig taka undir þau orð sem komu fram í ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar bæði um mikilvægi umræðunnar um fjárlög og einnig hvort taka bæri upp aðra háttu. Ég tel t.d. að efnahagsmálin, tekjuforsendur fjárlaga, grunnforsendur efnahagsþáttarins sem við erum að fjalla um hefðu þurft að fá mikið ítarlegri og sjálfstæða umræðu. Hv. þingmaður reifaði hugmyndir sem ég hef reyndar einnig gert á undanförnum árum, um að það væri sjálfstæð umræða um efnahagsþáttinn, um tekjugrunninn og forsendurnar, og síðan eins og hv. þingmaður kom inn á, um ákveðna málaflokka innan fjárlaga ríkisins þar sem bæði viðkomandi nefndarformenn og ráðherrar væru til staðar og tækju þannig málaflokkinn hvern og einn svona í grunninn afmarkað þó svo að það sé líka hægt að taka heildarumræðu um fjárlögin í lokin.

Það er virkileg þörf á því að hér fari fram sérgreind umræða og skoðanaskipti um þessi mál þar sem hægt er að kalla eftir viðbrögðum þeirra sem fara með stjórnvölinn, bæði ráðherra og meiri hlutans en þetta er líka mikilvægt fyrir einstaka þingmenn. Við erum jú fyrst og fremst kjörnir hingað sem þingmenn og störfum eftir sannfæringu okkar og eigum þess vegna rétt á öllum þeim upplýsingum og að fá að hafa skoðanaskipti við alla þá aðila sem hér eru og bera ábyrgð. Ég tek undir þessi sjónarmið og tel að það sé alveg ástæða til þess að þau séu skoðuð mjög gaumgæfilega. Fjárlagaumræðan núna hefur einmitt undirstrikað það hversu mikil þörf er á efnismikilli umræðu um þau og ég tel að allir þeir sem tekið hafa þátt í umræðunni hafi reynt að hafa hana þannig, eftir því sem þeir hafa haft tök á og aðstæður hafa leyft.

Frú forseti. Ég vil ítreka þökk fyrir efnismikla umræðu. Okkur greinir á um ýmis pólitísk atriði en skoðanaskiptin og umræðuna viljum við hafa og hún á að fara fram hér á Alþingi og ég tel að hún hafi farið fram með miklum sóma þessa tvo daga.