135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

erindi frá VG til ríkisendurskoðanda.

[15:04]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vek athygli forseta Alþingis og alþingismanna allra á því að enn er ósvarað erindi frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til ríkisendurskoðanda frá 22. ágúst sl. þar sem óskað var eftir áliti ríkisendurskoðanda á samkomulagi íslenska ríkisins og Landsvirkjunar sem dagsett er 9. maí sl. um yfirtöku vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár. Með samkomulaginu er verulegum verðmætum afsalað úr hendi ríkisins til Landsvirkjunar án nokkurrar heimildar í lögum og án þess að fyrirvari væri þar nokkur gerður. Við höfum óskað eftir því að ríkisendurskoðandi færi í saumana á þessu máli og kannaði lögmæti þess.

Margoft hefur verið gengið eftir þessari álitsgerð frá ríkisendurskoðanda, m.a. hér á Alþingi, og ég vil í því sambandi minna á umræður sem hér urðu 11. október sl. þegar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir tók þetta mál sérstaklega upp, en einnig hefur verið haft samband við ríkisendurskoðanda af þessu tilefni utan veggja Alþingis. Nú viljum við að sjálfsögðu tryggja vandaða málsmeðferð og að embætti ríkisendurskoðanda gefist svigrúm til slíks. Þegar við fengum hins vegar fréttir af því í morgun að álitið lægi enn ekki fyrir þrátt fyrir fyrirheit frá síðustu viku um að svo yrði — og reyndar hafa oft verið gefin fyrirheit um að þetta álit kæmi fram en þær tímasetningar hafa ekki staðist — vildi ég vekja athygli þingsins og forseta Alþingis sérstaklega á þeirri töf sem þarna hefur orðið.