135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.

[15:12]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég kem hér upp fyrir hönd míns flokks og minnar þjóðar til að átta mig eitthvað á stefnu ríkisstjórnarinnar sem virðist vera nokkuð marghöfða í mörgum málum. Í morgun fengum við þau skilaboð í gegnum Morgunblaðið í viðtali við hæstv. viðskiptaráðherra að kjarni málsins í efnahagsstefnunni væri að afnema verðtrygginguna. Auk þess segir viðskiptaráðherra, með leyfi forseta, „… algjört jafnvægi í íslensku hagstjórninni eða upptaka evru þurfi að koma til“.

Það sló mig svolítið að þetta væri haft með samtengingunni „eða“ því að ekki get ég séð að hægt sé að taka upp annan gjaldmiðil nema ná jafnvæginu fyrst. Það sem mér leikur forvitni á að vita er hvort þetta sé stefna ríkisstjórnarinnar, í fyrsta lagi það að afnema verðtrygginguna sem hæstv. viðskiptaráðherra getur hérna um eins og almennt baráttumál og síðan það sem hann gerir að sínu sérstaka baráttumáli og tekur fram að sé ekki í stjórnarsáttmálanum, að Íslendingar eigi að ganga í Evrópusambandið. Það vekur auðvitað upp þá spurningu hvort það sé eina ljósið sem ríkisstjórnin horfir til í efnahagsmálum og á hvern hátt hæstv. forsætisráðherra lítur á þetta innlegg hæstv. viðskiptaráðherra í umræðuna og sérstaklega kannski inn í umræðuna um íslensku krónuna. Hér er þráfaldlega talað niður til íslensku krónunnar, til gjaldmiðils þjóðarinnar í fullvalda lýðveldi af (Forseti hringir.) ráðherra í ríkisstjórninni.