135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.

[15:16]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Það sem ég spurði um var ekki sérstaklega afstaða fyrri ríkisstjórna. Þó að auðvitað sé sagnfræði mjög skemmtileg fræðigrein held ég að hún hjálpi okkur afskaplega lítið í þessu viðfangsefni sem er grafalvarlegt, hagstjórnin í dag.

Ég ítreka hér spurningu mína um afstöðu forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar til verðtryggingarinnar. Ég geri mér alveg grein fyrir að hún er umdeilanleg. Það skiptir samt nokkru máli hvort allt það sem viðskiptaráðherra sagði í þessu viðtali hafi bara verið hans persónulegu einkahugleiðingar, eða aðeins það sem hann setti fyrirvara við í viðtali sem var evruumræðan.

Það var ekki hægt að skilja viðtalið öðruvísi en svo að það sé bara evran, samanber upphaf viðtalsins, með leyfi forseta:

„Kjarni málsins er að framtíðartónlistin“ — flott skal það vera — „er afnám verðtryggingar og stöðugt efnahagslíf, þar sem verðbólgan er við eða undir viðmiðunum Seðlabankans.“

Það hlýtur að vera stefnumarkandi afstaða ríkisstjórnarinnar að afnema verðtrygginguna og (Forseti hringir.) það eru þá nokkur tíðindi.