135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

rannsókn á Kumbaravogsheimilinu.

[15:19]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég gæti trúað að margir þeir sem eru hér í þessum sal og aðrir sem hafa fengið Morgunblaðið sem út kom á sunnudaginn, var reyndar borið í hús að laugardagskvöldi 1. desember, hafi lesið þar afar athyglisverða grein um Kumbaravogsbörnin eftir Guðrúnu Sverrisdóttur hjúkrunarfræðing. Þar er afar átakanleg frásögn af reynslu ungrar stúlku sem upplifði það að frændsystkini hennar lítil voru sett í fóstur á Kumbaravog árið 1965 og voru þar lengi.

Nú veit ég, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin setti á fót nefnd í apríl síðastliðnum sem gert var að kanna vistheimilið Breiðavík og skoða með hvaða hætti atlætinu sem börnin fengu var ábótavant, leitast við að staðreyna eins og kostur væri hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru á því vistheimili hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi á meðan þau dvöldu þar og lýsa því hvernig opinberu eftirliti með því vistheimili var háttað og þar fram eftir götum. Ég veit að sú nefnd er að störfum og á að skila áliti 1. janúar 2008.

Þegar hins vegar ríkisstjórnin brást við þeim vísbendingum sem voru þá komnar upp varðandi Breiðavíkurheimilið sagði í fréttatilkynningu frá ríkisstjórninni að eftir atvikum ætti einnig að skoða hliðstæðar stofnanir og sérskóla þar sem börn dvöldu. Gæfu upplýsingar og gögn tilefni til þess að rannsóknir á þeim heimilum yrðu með þeim hætti að það þyrfti að rannsaka málin frekar yrði það gert.

Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hvers vegna var rannsóknin einungis látin ná til Breiðavíkurheimilisins (Forseti hringir.) og er ástæða til þess að útvíkka starfssvið nefndarinnar núna?