135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

rannsókn á Kumbaravogsheimilinu.

[15:21]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil gjarnan upplýsa það að sú nefnd sem hefur rannsakað málefni Breiðavíkurheimilisins hefur unnið af fullum krafti alveg frá því að henni var komið á laggirnar. Í henni sitja sérfræðingar sem þessum málum tengjast, auk þess sem ráðinn var sérstakur faglærður starfsmaður til þess að vinna með nefndinni að þessum mikilvægu verkum.

Ég geri ráð fyrir því að nefndin ljúki störfum hvað þetta varðar samkvæmt þeirri áætlun sem ákveðin var í upphafi og við þau tímamót verður tímabært að ákveða hvaða frekara framhald verður á þessum rannsóknum. Ég vil ekki segja hér og nú hvert það verður. Ég tek undir með hv. þingmanni að sú lýsing sem reidd var fram í Morgunblaðinu í gær er mjög átakanleg en ég vil hvorki fella hér dóma um þá sem þar áttu hlut að máli né önnur heimili sem áhugi kann að vera á að taka til rannsóknar. Ekki vil ég gera það á þessu stigi.

Sem betur fer hillir undir að rannsókninni og athuguninni á Breiðavíkurmálinu ljúki. Væntanlega verður þar einnig að finna tillögur af hálfu nefndarmanna um það hvernig best verði að standa að málum sem þessum í framtíðinni. Ég vil bíða eftir þeim tillögum og fá tóm til að kynna mér þær áður en ég læt uppi hvernig ég get hugsað mér framhald þessara mála.