135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

verksmiðjubú í mjólkurframleiðslu.

[15:24]
Hlusta

Jón Björn Hákonarson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fá að beina hér fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um afstöðu hans til þeirrar þróunar sem er við það að hefjast í landbúnaði, þ.e. verksmiðjubú í mjólkurframleiðslu.

Það er auðvitað ekkert vafamál að við höfum séð stækkun búa, og eðlilega, á síðustu árum, sérstaklega í mjólkurframleiðslunni. Nú sjáum við kannski í fyrsta skipti að það er að rísa bú sem við getum kallað verksmiðjubú á Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu þar sem gert er ráð fyrir, þrátt fyrir að það liggi ekki endanlega fyrir hjá þeim sem þar ráða ríkjum, að menn horfi í að þar verður framleiddur mikill meiri hluti mjólkurkvótans hér á landi, allt að 5–10%.

Við höfum gagnrýnt þessi bú víða erlendis. Þetta hefur lengi verið viðloðandi í bæði Bandaríkjunum og Evrópu. Þá veltir maður fyrir sér þeirri ímynd sem við höfum reynt að skapa okkur í íslenskum landbúnaði sem er vistvænn og hreinn landbúnaður. Er þetta það sem við viljum sjá fyrir okkur?

Nú er það þekkt í þessum búum að fjársterkir aðilar koma að uppbyggingunni. Sjáum við t.d. fyrir okkur að þessi bú muni hljóta beingreiðslur eða munu þau framleiða utan kvóta? Ég tek þetta hér upp af því að mér óar svolítið við þessari umræðu og þessari þróun á sama tíma og við viljum styrkja landbúnað okkar með vistvænni framleiðslu og auðvelda það að landið sé sem víðast í byggð. Þess vegna beini ég þessari fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra.