135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

verksmiðjubú í mjólkurframleiðslu.

[15:26]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Almennt talað vil ég segja að ég fagna þeirri þróun sem hefur orðið í íslenskum landbúnaði. Við sjáum að búin hafa verið að stækka og þeim hefur þess vegna auðnast að takast á við ýmis þau verkefni og viðfangsefni sem við þeim hefur blasað.

Til þess að við getum náð hámarksafrakstri og náð því að lækka framleiðslukostnað í landbúnaði þarf að eiga sér stað hagræðing og þá þurfa m.a. búin að stækka. Við þekkjum að það er orðin gríðarlega mikil tæknibreyting í íslenskum landbúnaði og hún kallar einfaldlega á það að búin verði stærri vegna þess að til þess að standa undir þeirri fjárfestingu sem er nauðsynleg til að glíma við það viðfangsefni að reyna að lækka framleiðslukostnað þarf tiltekna stærð af búum.

Ég held að almennt talað eigum við að fagna því að þessi bú séu að stækka og þau séu þar með að verða öflugri. Þetta er þróun sem hefur átt sér stað á allmörgum árum. Það er ekkert nýtt í því sem hefur verið að gerast í sjálfu sér allra síðustu árin. Þetta er þróun sem hefur farið yfir lengri tíma eins og við höfum rætt hérna nokkrum sinnum í þinginu þegar við höfum fjallað um hvort ástæða sé til að sporna við því að jarðir sem hafa m.a. verið í eyði eru núna orðnar setnar vegna þess að menn eru hér að stækka þessi bú sín.

Almennt talað tel ég með öðrum orðum að þessi þróun sé jákvæð. Það kunna auðvitað að vera uppi einhver tiltekin álitaefni sem við getum rætt. Þau bú sem hv. þingmaður vék að eiga auðvitað sama rétt til beingreiðslna og önnur bú í landinu og erfitt í sjálfu sér að hugsa sér að við setjum einhverjar reglur sem komi í veg fyrir það að bú af tiltekinni stærð njóti beingreiðslna eins og önnur bú í landinu.

Ég vek athygli á því að sum þessara búa sem hv. þingmaður nefndi byggja á því m.a. að þar eru núna setnar jarðir sem áður voru í eyði. Það er í sjálfu sér jákvæð þróun. Það er gríðarleg breyting hins vegar í ábúð jarða vegna þess að (Forseti hringir.) menn takast á við ný verkefni í landbúnaðinum og það hefur auðvitað sínar afleiðingar.