135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:38]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég geri grein fyrir afstöðu okkar framsóknarmanna til fyrirliggjandi fjárlagafrumvarps og ítreka það sem ég hef áður nefnt í þessum ræðustóli að þetta fjárlagafrumvarp er ekki í neinu samræmi við ráðgjöf nokkurra hagfræðinga eða í neinum takt við þann raunveruleika sem þjóðin býr við. Þetta fjárlagafrumvarp er beinn reikningur á heimilin í landinu upp á 10–20 þús. kr. í auknum vaxtabyrðum húsnæðislána. Þetta er beinlínis til að þyngja og erfiða róðurinn hjá fátækum íbúðarkaupendum í landinu með þeim hástemmdu tillögum sem hér eru settar fram. Þess vegna er ábyrgðarhluti að ríkisstjórnin skuli leggja fram frumvarp sem þetta.

Við framsóknarmenn munum sitja hjá við alla þessa atkvæðagreiðslu og ekki tína þar út einstaka liði til að mæla með einu og móti öðru. Við teljum einfaldlega að hér séu mörg ágæt framfaramál sem lagður er peningur í en í heildina séð hefur verið gefinn allt of mikill slaki í fjárlögunum, allt of mikill slaki varðandi opinbera þenslu og það er alls ekki okkar hlutverk að taka ábyrgð á því.

Varðandi breytingartillögur höfum við ákveðið að styðja eina þeirra, um háskólasetur á Ísafirði, en að öðru leyti sitjum við einnig hjá við þær breytingartillögur sem lagðar eru fram af öðrum stjórnarandstöðuþingmönnum.

Ég vil aðeins nefna það að við framsóknarmenn lögðum til mótvægisaðgerðir sem eru með nokkuð öðrum hætti en þær sem ríkisstjórnin er með. Við sáum ekki ástæðu til að koma með þær sérstaklega sem tillögu við fjárlagagerðina. Hluti af því sem við höfum lagt til hefur haft áhrif á þau störf sem ríkisstjórnin hefur þegar sett í gang, og það er vel, en hluti er þar óunninn og hefur komið fram í þingsályktunartillögum hjá okkur og mun verða áfram í umræðunni. Ég ítreka þá skoðun okkar framsóknarmanna að við teljum að það fjárlagafrumvarp sem hér er lagt fram sé algerlega ábyrgðarlaust og sé beinn reikningur á heimilin í landinu í hærri vöxtum og aukinni vaxtabyrði húsnæðiskaupenda.