135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:46]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Kringumstæður allar við afgreiðslu þessa fjárlagafrumvarps eru nokkuð óvenjulegar. Það er engin leið að horfa fram hjá því að þjóðhagsforsendur eru ákaflega óvissar og ótryggar. Það er allt á floti í þeim efnum og hagstjórn ríkisstjórnarinnar er í upplausn. Ráðleysi virðist ríkja á stjórnarheimilinu hvað það varðar. Seðlabankinn rær í vestur og ríkisstjórnin í austur ef hún rær þá nokkuð yfir höfuð. Nær væri kannski að segja að hún flyti stjórnlaus um með árar í báti.

Einnig hvað varðar (Gripið fram í.) hina áformuðu breytingu á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins er ætlunin að efna til mjög óvenjulegrar afgreiðslu, þ.e. breyta tilvonandi fjárlagafrumvarpi í takt við það sem á að verða um áramót en er þó í blóra við gildandi lög í landinu og fjölmörg sérlög sem þurfa að taka breytingum eigi þessi gerningur að fá staðist stjórnskipulega. Í sumum tilvikum eru frumvörp til umfjöllunar í þingnefndum en í öðrum tilvikum eru alls ekki komin fram frumvörp sem þarf að flytja og breytingar á lögum sem þarf að gera til að fjárlagafrumvarp komandi árs geti þá orðið í samræmi við gildandi landslög. Þetta er algerlega með endemum og ríkisstjórnin og meiri hluti hennar gerði réttast í því einu að kalla allan þennan þátt málsins aftur nú við 2. umr., kalla breytingartillöguskjalið sem að þessu lýtur sérstaklega og mun vera á þskj. 344 aftur í heild sinni. Ég skora á forsvarsmenn meiri hlutans að gera það.

Af efnislegum þáttum ætla ég aðeins að nefna tvennt, hin stórauknu og nýtilkomnu útgjöld til hermála sem eru helsta stefnubreyting þessarar ríkisstjórnar það sem af er og í raun eina umtalsverða stefnubreytingin frá því sem var í tíð fyrri ríkisstjórnar Framsóknarflokks og sjálfstæðismanna. Það eru hin miklu nýju útgjöld til hermála sem Samfylkingin ætlar að reisa sem sérstakan bautastein sinn við þessa fjárlagaafgreiðslu. Hitt eru göt í fjárveitingum og algerlega ófullnægjandi úrlausn sem ýmsar mikilvægustu velferðarstofnanir og mikilvæg velferðarsvið fá í þessu frumvarpi. Þar nægir að nefna meðferðina sem sjálft flaggskip sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu í landinu, Landspítalinn, á að fá. Það er neðan við allar hellur að þar skuli eiga að skera niður þegar þörfin er öll í hina gagnstæðu átt og augljóst mál að Landspítalinn þarf a.m.k. 700 til 1.000 millj. kr. í viðbót við það sem fjárlagafrumvarpið og breytingartillögurnar gera ráð fyrir bara til að halda sjó.

Þannig er þetta frumvarp, eins og ríkisstjórnin sjálf, ákaflega daufgert (Forseti hringir.) og flýtur sofandi áfram.