135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:49]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það hefur verið nokkuð merkileg og skemmtileg reynsla að taka þátt í að smíða fjárlög fyrir íslenska ríkið og margt í því starfi er þess eðlis að óhjákvæmilegt er að við þá vinnu hugleiði menn það að stundum mætti vinna hlutina öðruvísi en gert er. Ég held að menn séu mjög sammála um það og hafi náð mjög vel saman um þau áhersluatriði í fjárlaganefndinni, þvert á allar pólitískar flokkslínur, að vilji manna stendur til að gera breytingar á verklagi. Það er óumdeilt. Þannig hyggjumst við, eins og ágætlega hefur komið fram í máli hv. þm. Gunnars Svavarssonar, vinna á komandi árum.

Eins og hér hefur komið fram leggjum við úr meiri hluta fjárlaganefndar til breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga upp á tæpar 1.300 millj. Að teknu tilliti til þessara breytinga er tekjujöfnuður ríkissjóðs jákvæður um 38 milljarða kr. og hækkar um 7 milljarða á milli umræðna. Staða ríkissjóðs er gríðarlega sterk og endurspeglast í þessu og af því leiðir ákveðna erfiðleika. Það er erfitt að standast kröfur um aukin útgjöld. Það er bara svo einfalt mál. Það kostar staðfestu að standa gegn því að eyða öllum þeim skatttekjum sem ríkið fær en það er bráðnauðsynlegt og ekki síst í þeirri stöðu sem við erum í núna við að reyna að halda aftur af útgjöldum. Fjárlögin endurspegla og eiga að endurspegla áherslur ríkisvaldsins í því hvernig við viljum byggja landið og sjá það vaxa og dafna í samfélagi þjóðanna. Þess sér ágætlega stað í frumvarpinu þar sem við erum að horfa upp á stóraukin framlög til menntamála, heilbrigðismála, samgöngumála og ekki síst byggðamála þar sem við horfum á tillögur Vestfjarðanefndar og umræddar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Allt þetta leggst á eitt um að styrkja búsetuna í landinu og leggst á eitt með að styrkja samkeppnisstöðu Íslands gagnvart öðrum löndum.

Ég leyfi mér í því sambandi að vísa til umræðu sem átti sér stað í síðustu viku um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og óumdeilt er að lífskjör og lífsskilyrði hér á landi eru með þeim bestu í allri veröldinni. Um það þarf ekki að deila. Fjárlagafrumvarp ársins 2008 leggur fram fjöldann allan af stoðum sem er ætlað að styrkja þá stöðu sem Ísland hefur náð í samfélagi þjóðanna og ég fagna því að hafa haft tækifæri til að taka þátt í þeirri vinnu.