135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[15:53]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hér mæli ég fyrir tillögu frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um hækkun á fjármagnstekjuskatti, að skatthlutfallið verði fært úr 10% í 14%. Ætla má að með þeirri breytingu ykjust tekjur ríkissjóðs um 11 milljarða, færu úr 35 milljörðum í 46 milljarða af þessum tekjustofni. En við látum ekki hér við sitja, við viljum setja á sérstök skattleysismörk fyrir fjármagnstekjur að upphæð 120 þús. kr. á ári fyrir einstakling.

Hvað mundi þetta þýða? Þetta mundi þýða að rúm 90% einstaklinga og um 70% hjóna sem núna greiða fjármagnstekjuskatt yrðu undanþegin slíkum skatti. Þetta þyngir með öðrum orðum skattbyrðina hjá þeim sem afla mikilla fjármagnstekna en afléttir og léttir skattbyrðum af hinum sem eru smásparendur og að uppistöðu til almennt launafólk í landinu. Tekjubilið á Íslandi hefur aukist (Forseti hringir.) en tekjuhæstu hóparnir greiða mun minni skatta að hlutfalli til en hinir tekjulægri. (Forseti hringir.) Þetta er til þess að afla ríkissjóði tekna til að bæta stöðu (Forseti hringir.) heilbrigðiskerfisins og einnig er þetta til réttlætis.