135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:30]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er tillaga sem við flytjum saman, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins, sem lýtur að lífeyristryggingum, þ.e. að tekjutrygging til lífeyrisþega verði hækkuð, tekjutrygging örorkulífeyrisþega sömuleiðis og enn fremur ný framtíðarskipan lífeyrismála. Þetta er fullkomlega í samræmi við þá tillögu sem stjórnarandstöðuflokkarnir fluttu saman fyrir nákvæmlega ári, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn. Aðalmál okkar allan fyrravetur var að þessir hópar, ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar, skyldu fá að njóta forgangs og þessi tillaga er endurflutningur á nákvæmlega sömu tillögu og við stóðum saman að fyrir ári. Enn skortir mikið á að staðið sé við gefin loforð við ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega (Forseti hringir.) og ég skora á herra forseta að sjá til þess að þingmenn Samfylkingarinnar greiði nú atkvæði eins og þeir greiddu fyrir ári. (Forseti hringir.) Ég segi já.

(Forseti (StB): Forseti getur ekki ráðið því. Hver ræður sínu atkvæði.) (Gripið fram í: Hann getur reynt.)