135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:43]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég minni á að þetta mál kom til umræðu í óundirbúnum fyrirspurnum fyrr í dag. Það liggur fyrir að lífeyrissjóðirnir hafa hafnað samstarfi við ríkið um að nota þessa peninga til að falla frá þeirri skerðingu sem þeir framkvæmdu á greiðslum 1. desember sl., því miður. Það virðist líka liggja fyrir að ríkisstjórnin sé ekki tilbúin til að leggja meira af mörkum í þessum efnum. Ég held að hv. þm. Pétur Blöndal ætti ekki að hampa því sérstaklega að þarna fái margir í sinn hlut langt umfram það sem eðlilegt geti talist. Ég held að við ættum frekar að minnast hinna sem fá tugi þúsunda kr. minna sér til framfærslu í jólamánuðinum vegna þessara breytinga (PHB: Ég gerði það.) af því að ríkisstjórnin bindur þátttöku sína og innkomu í málið við 100 millj. kr. Allt og sumt sem hér vantar eru 200–300 millj. kr. í viðbót og þá hefðu lífeyrissjóðirnir verið tilbúnir að falla frá þessari skerðingu. Það sem ríkisstjórnin á auðvitað að gera er að kalla þessa tillögu aftur, koma með hana við 3. umr. og hafa þá upphæð sem dugar til að ekki verði af þessari skerðingu.