135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:12]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er skammarlegt hvernig farið er með þennan málaflokk, umhverfismálin, í þessu fjárlagafrumvarpi. Það er auðvitað þess vegna sem hæstv. umhverfisráðherra er bara hlaupin á brott og tekur ekki þátt í þessari atkvæðagreiðslu um málefni sín hér. Það er verið að lækka um 70 millj. kr. fjárveitinguna sem fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir til umhverfisráðuneytisins. Eina hækkunin sem heitið getur er til olíuleitar á Drekasvæðinu við Jan Mayen ef frá er talin gestastofan í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi.

Að Náttúrufræðistofnun Íslands skuli fá lækkun um 80 millj. kr. þvert ofan í yfirlýsingar Samfylkingarinnar um eflingu málaflokksins er skandall. Breytingartillagan sem hér eru greidd atkvæði um gerir ráð fyrir því að Náttúrufræðistofnun Íslands fái 45 millj. kr. aukið fjárframlag og það er ekki nema eðlilegt að hún fái það til að standa straum af þeim kostnaði sem hún þarf að leggja í vegna skráningar gróðurkorta og vistkerfis Íslands sem ég hélt að væri á stefnuskrá Samfylkingarinnar að hraða.