135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:19]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil aðeins gera grein fyrir afstöðu okkar framsóknarmanna til þessa máls sérstaklega en ég get tekið að nokkru undir það sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, hér er skautað mjög á mörkum þess sem fært er gagnvart lögunum og ég lýsi ábyrgð á hendur stjórnarmeirihlutanum um hvernig staðið er að breytingu á Stjórnarráðinu. Það mál er allt unnið mjög flausturslega og ég get tekið sem eitt lítið dæmi út úr þessu að í 8. tölul. í þessari sundurliðun er tekið fram að Landbúnaðarstofnun sem hafi fengið fjárveitingu á lið 04-234-1.01 skuli nú heita Matvælastofnun. Þetta mál ræddum við í þingsal fyrir nokkrum vikum þegar umræðan var um bandorminn. Þá heyrði ég ekki betur en að hæstv. forsætisráðherra teldi það athugunarvert og umhugsunarvert að kannski ætti að skoða nafnbreytingu þessarar stofnunar. Ég gerði stórar athugasemdir við það að þessi stofnun yrði látin heita Matvælastofnun þar sem hún mun m.a. fjalla um stóðhross og gæludýrainnflutning sem hvorugt þykir fara vel á matseðli hjá fólki. (Gripið fram í: Stóðhross.) Stóðhross má éta. Það mun vera rétt hjá hv. þingmönnum að stóðhross má éta en öllu meiri villimennska þykir að leggja sér gæludýr til munns.

Aðalatriðið í þessu er að hér er verið að lögleiða eitthvað sem er ekki búið að samþykkja formlega. Hér er verið að færa inn í fjárlagafrumvarpið eitthvað sem er ekki útrætt í þessum sölum. Hér er þannig hoppað yfir þann lýðræðislega vettvang sem Alþingi á að vera og algerlega látið eins og umræða hér skipti engu máli. Ég tek þetta bara sem lítið dæmi og auðvitað um mikinn hégóma því að þessi stofnun má auðvitað heita það sem henni sýnist. Rétt væri að láta starfsfólkið ráða því en ekki ráðherra ríkisstjórnarinnar. Við framsóknarmenn munum sitja hjá við afgreiðslu á þessum lið eins og öðrum liðum þessa fjárlagafrumvarps sem við teljum mjög ábyrgðarlaust plagg.

(Forseti (StB): Forseti getur ekki fallist á að tillagan sé óþingleg.)