135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:39]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er leitað heimildar öðru sinni til að selja jörðina Þjótanda í Flóahreppi við Þjórsá. Við þingmenn Vinstri grænna teljum ekki ástæðu til að veita þessa heimild öðru sinni í ljósi þess hvernig með hefur verið farið á þessu ári. Þar vitna ég til hins dæmalausa leynisamnings þar sem vatnsréttindum í Þjórsá var ráðstafað til Landsvirkjunar þremur dögum fyrir kosningar og þar með, í þeim gjörningi, var jörðinni Þjótanda ráðstafað til Landsvirkjunar þannig að þrátt fyrir heimild í fjárlögum var jörðin ekki auglýst og þó að Flóahreppur hafi eindregið óskað eftir því að fá að kaupa þessa jörð var því hafnað.

Við höfum líka heimildir fyrir því að jörðin hafi verið boðin sem skiptimynt öðrum jarðeigendum til að semja mætti við þá um vatnsréttindin sem þeir áttu í fórum sínum, eitthvað um 7%. (Gripið fram í: … Guðni Ágústsson?) Við segjum nei.