135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:46]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Við lok þessarar afgreiðslu á fjárlögum til 3. umr. er vert að vekja athygli á því sem við höfum gert, þingmenn Framsóknarflokksins. Það er eðlilega margt ágætt í þessu fjárlagafrumvarpi og verður í þessum fjárlögum mikilvægt og gott en því er ekki að leyna að ríkisstjórnin er komin á gult spjald. Eftirlitsstofnanir innan lands og erlendis segja að hún gái ekki að sér, hér sé þensla sem muni á næstu mánuðum skaða hagsmuni fólksins, ekki síst af því að ríkisstjórnin er daufgerð og hún áttar sig ekki á þeim veðrum sem ríkja.

Það er full ábyrgð fólgin í því, hæstv. fjármálaráðherra, að sitja hjá við þessa afgreiðslu. Þetta eru þenslufjárlög. (Gripið fram í.) Þau geta sprungið framan í hæstv. ríkisstjórn og það bendir margt til þess að erfiðleikar séu fram undan út af þenslu sem ekki er tekið á, út af hækkandi verðbólgu. Það er farið að bitna á hag heimilanna á Íslandi (Forseti hringir.) og fyrirtækin eru í verri og verri rekstri, útflutnings- og samkeppnisfyrirtæki eiga erfitt þannig að ríkisstjórnin er smátt og smátt, (Forseti hringir.) hæstv. forseti, að færast á rauða spjaldið. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.)

(Forseti (StB): Hv. þingmenn eru beðnir um að gefa gott hljóð.)