135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:47]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ekki mjög venjulegt að þingmenn greiði atkvæði gegn því að fjárlagafrumvarpi sé vísað áfram til 3. umr. en við höfum skýrt hvers vegna við getum ekki samþykkt það, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að hér hafi verið greidd atkvæði um liði í fjárlögum sem lúta að þáttum í stjórnsýslunni sem eiga sér hreinlega ekki lagastoð. Það er ekki búið að samþykkja þessar breytingar og við höfum ekki fengið skýringar frá hæstv. forseta Alþingis á hvaða lagaheimild hér sé byggt.

Ég vek athygli þingheims á einu, sennilega hefur aldrei eins mörgum breytingartillögum stjórnarandstöðu verið haldið til baka og vísað til 3. afgreiðslu. Þessar breytingartillögur lúta fyrst og fremst að heilbrigðisþjónustunni í landinu. Við vitum að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að svelta hana út í einkarekstur og Samfylkingin þjónar Sjálfstæðisflokknum hvað það snertir. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hefur verið settur til verka innan Landspítalans þar sem hann sveiflar nú niðurskurðarsveðjunni og þess er krafist að Landspítalinn skeri niður (Forseti hringir.) um 500–700 millj. kr. Þetta verður mál málanna við 3. umr. fjárlaga.