135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[18:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég felli mig ekki við það að við stjórnarandstöðuþingmenn skulum aftur og aftur koma hingað í þennan ræðustól til að spyrja hæstv. forseta einfaldra spurninga og forsetar leyfa sér að svara ekki. Ég átta mig ekki á því hvers vegna ekki er hægt að gefa hrein svör við þeirri fyrirspurn sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lagði fram hér fyrir mínútu. Hann óskaði eftir því, formlega, að þessu máli yrði nú frestað þannig að það gæfist það ráðrúm sem eðlilegt teldist fyrir okkur til að ræða það og ekki hvað síst það — til þess að standa við þau orð hæstv. forseta sem leggur málið fram — að hér eigi að fara að skapa fjölskylduvænan vinnustað. Nú skuli sem aldrei fyrr hefja ný vinnubrögð þar sem vinnustaðurinn verði hafinn til vegs og við getum farið að vinna hér á eðlilegum tímum.

Hvers vegna er þá þetta mál endilega rætt hér undir kvöld, að loknum vinnudegi sem er búinn að vera fremur lýjandi? Atkvæðagreiðsla við 2. umr. fjárlaga er lýjandi.

Ég spyr hæstv. forseta: Hvers vegna er ekki hægt að svara spurningunum sem við berum hérna upp? Hvers vegna gat hæstv. forseti ekki sagt að tekin hefði verið ákvörðun um annað og fundinum yrði fram haldið eins og dagskrá gerði ráð fyrir? Hæstv. forseti gerði það ekki. Hann gerði það ekki. Hann las hins vegar tilkynningu um að fallist hefði verið á tvöfaldan ræðutíma. Við þökkum fyrir það, við erum afar þakklát fyrir það, en við viljum ekkert endilega fá málið á dagskrá núna. Við vildum heldur gera það þegar þingfundur væri að hefjast, okkur fyndist meiri bragur að því að þetta mál yrði rætt í upphafi þingfundar.

Eins og ég segi, það eru brögð að því að hæstv. forsetar svari ekki þeim einföldu spurningum sem lagðar eru hérna fyrir þá, mér þykir það ekki góður siður og þess vegna geri ég þessa athugasemd.