135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[18:24]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Á morgun er á dagskrá þingsins afar erfitt og umfangsmikið frumvarp um tilfærslur innan Stjórnarráðsins. Á miðvikudaginn í síðustu viku skilaði meiri hluti allsherjarnefndar frá sér áliti og 15 breytingartillögum sem voru teknar út úr nefndinni sama dag og þær voru kynntar. Minni hlutinn náði svo loks í dag eftir að a.m.k. ég hafði unnið alla helgina við þá álitsgerð til að sýna vilja til vandaðra vinnubragða að skila ítarlegri minnihlutaálitsgerð um málið. Það tókst að ljúka henni í dag með því að skiptast á skilaboðum við ritara þingsins undir atkvæðagreiðslunni um fjárlögin.

Þessu minnihlutaáliti sem er upp á níu síður, og fylgja átta eða níu fylgiskjöl, verður dreift. Þetta mál verður tekið fyrir á morgun. Ég þarf að undirbúa það. Ætlast herra forseti til þess að ég geri það í nótt eftir að hafa unnið að álitinu alla helgina við þær aðstæður sem mér eru skapaðar? Ég spyr. Eða er mönnum alveg sama hvað menn segja hér í ræðustól? Til að flytja vandaðar, gagnorðar ræður (Gripið fram í.) þarf langan undirbúning. Eftir því sem undirbúningurinn verður minni, þeim mun verri og lengri verða ræðurnar. Og að þessu tilefni gefnu spyr ég hæstv. forseta, hæstv. fyrrverandi ráðherra: Hvað á umræða um þingsköpin að standa lengi í kvöld? Verður sett tímamark á hana? Verðum við hérna til 10? Verðum við hérna til 11? Eða verðum við þangað til umræðunni er lokið einhvern tímann í nótt? Eigum við við þær aðstæður að fara svo í umræðurnar um tilfærsluna innan Stjórnarráðsins?

Ég spyr líka vegna þess að ég hef mikinn áhuga á þessu þingskapamáli sem varðar mjög miklu um framtíð þingsins. Ég er einn þeirra sem hefði kosið að gerð yrði heildarúttekt á störfum þingsins frá a til ö, að við settumst saman og gæfum okkur tvö ár til að klára það.

Hyggst herra forseti láta þingmenn klára þessa umræðu jafnvel þótt hún fari inn í nóttina eða ekki eða getur herra forseti látið mig vita fyrir fram hér og nú hvenær umræðunni í kvöld lýkur? Vegna þess að ég þarf að sinna fjölskyldu minni líka.