135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[18:30]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki mikla reynslu af störfum á hv. Alþingi en allmikla reynslu af stjórnmálastörfum á öðrum vettvangi, í borgarstjórn Reykjavíkur. Ég verð að viðurkenna að það kemur mér býsna spánskt fyrir sjónir hvernig vinnubrögð eru á hv. Alþingi, m.a. að því er lýtur að skipulagi þingfunda. Mér finnst það líka sérkennilegt að forseti Alþingis — hann situr ekki í augnablikinu í forsetastóli heldur einn af varaforsetum — skuli ekki vilja taka til máls þegar verið er að leita eftir svörum um það hversu lengi umræðan eigi að standa og hvernig málið beri að.

Nú hagar svo til að forseti Alþingis er forseti alls þingsins og allra þingmanna. Hann var ekki einungis kjörinn til þess trúnaðarstarfs með atkvæðum þingmanna stjórnarflokkanna heldur fékk hann mörg atkvæði úr röðum stjórnarandstæðinga og m.a. úr þeim þingflokki sem ég sit í. Ég get upplýst, þó að atkvæðagreiðslan hafi verið leynileg, að ég greiddi forseta Alþingis atkvæði mitt. Mér finnst það lítilsvirðing við okkur að forsetinn skuli ekki upplýsa hvernig hann hefur hugsað sér umræðuna.

Hann er að leggja fram mál og segir meginmarkmið þess vera að koma betra skipulagi á þingstörf og því finnst mér ekki til of mikils mælst að hann starfi í anda þess sem hann boðar. Enda þótt frumvarp hans sé ekki orðið að lögum finnst mér að hann eigi að upplýsa okkur um hvernig hann sér umræðuna fyrir sér. Á hún að standa langt fram á nótt? Á að ljúka þessari 1. umr. og halda henni áfram þangað til henni verður lokið, hvenær sem það er, og taka svo til við annað stórt mál á morgun, eins og hv. þm. Atli Gíslason reifaði í innleggi sínu um fundarstjórn? Þar er líka stórt mál á ferðinni, þar eru nýkomin nefndarálit, sumu hefur ekki verið dreift enn, sem þingmenn þurfa væntanlega að kynna sér og fara yfir til að geta tekið þátt í umræðum á einhverjum vitrænum forsendum.

Ég hlýt því að hvetja hæstv. forseta til að gera okkur grein fyrir því í stuttu máli hvernig hann sér þessa umræðu fyrir sér fram á kvöldið.