135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[18:34]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það veldur mér miklum vonbrigðum að heyra hæstv. forseta Alþingis lýsa því yfir að nú, þegar klukkan er að ganga sjö að kvöldi, skuli eiga að hefja umræðu sem eigi að ljúka hér í kvöld til þess að koma málinu til nefndar. Ég gat ekki skilið orð forsetans á annan veg en þann að koma ætti málinu í vinnslu til nefndar, þess heldur sem menn vildu nú kannski tala um málið.

Ég spyr: Hvað er að í störfum Alþingis? Hvað á þingskapafrumvarp forseta að laga? Ekki þetta, alls ekki þetta. Það skal áfram vera geðþóttaákvörðun forseta hvernig mál eru lögð inn í dagskrá og það meira að segja, eins og hér hefur verið upplýst, án minnsta samráðs við formenn þingflokka.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks Vinstri grænna, óskaði eftir því að hlé yrði gert á fundi þannig að leita mætti samkomulags um fyrirkomulag umræðunnar. Af þeim athugasemdum sem þingmenn Vinstri grænna hafa gert má vera ljóst að við teljum mjög óeðlilegt að fara inn í þessa 1. umr. nú undir kvöld, bæði vegna þess að fundir hafa staðið í allan dag, nefndarfundir eru boðaðir í fyrramálið og fyrir þinginu liggja mjög stór verkefni á morgun. Við viljum freista þess, ef nokkur kostur er, að ná samkomulagi við hæstv. forseta — ég vil ekki segja við ríkisstjórnarflokkana. Ég tek undir það sem áður hefur verið sagt: Ég held að þetta sé fyrst og fremst eitthvert mál sem hæstv. forseti vill knýja fram umfram aðra. Ég hef ekki heyrt aðra þingmenn úr stjórnarliðinu taka fram að málið sé svo mikilvægt að setja þurfi á næturfund. Ég vona að menn séu ekki að tala um að fara að breyta þingskapalögunum með fimm mínútna umræðu, eða hvað? Ætla menn ekki að ræða þetta mikilvæga mál eins og efni standa til? Það hlýtur að vera.

Hæstv. forseti hefur lýst því yfir að við eigum að vera hér fram á nótt. Ég vil leyfa mér að mótmæla því. Ég vil vekja athygli þingmanna á því að ekkert í þingskapafrumvarpi forseta, sem hér á að fara að ræða, breytir slíku skipulagsleysi á störfum þingsins. Það skipulagsleysi gerir okkur sem erum í fámennari þingflokkum erfiðara fyrir að standa okkar plikt, standa okkur sem þingmenn og setja okkur vel inn í mál þannig að menn geti, eins og hv. þm. Atli Gíslason (Forseti hringir.) nefndi áðan, komið vel undirbúnir í þennan stól. Þetta er ekki til þess að auka virðingu Alþingis, herra forseti.