135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[18:38]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssyni, fyrir að koma hér og gera grein fyrir því hvernig hann sér fyrir sér umræðuna fram á kvöld. Engu að síður verð ég að harma að ég varð ekki miklu nær um það hversu lengi þessum þingfundi er ætlað að standa. Mér finnst mikilvægt að geta fylgst með þeirri umræðu sem fara mun fram, og geta tekið þátt í henni, en þegar komið er fram að kvöldmat verðum við að gera ráð fyrir því, í anda þess sem boðað er um fjölskylduvænan vinnustað, að fólk geti, þingmenn líka, sinnt fjölskyldum sínum, skipulagt tíma sinn, skipulagt tíma sinn í kvöld og fyrir morgundaginn.

Eins og þegar hefur komið fram eru nefndarfundir boðaðir í fyrramálið og stórt mál er á dagskrá fundarins á morgun, utandagskrárumræða o.s.frv. Í mínum huga er algjörlega ómögulegt að vita hvernig þessum fundi á að vinda fram, hvað hann á að standa lengi og hvenær tækifæri er og tími til að undirbúa næsta sólarhringinn miðað við það að þingmenn sitji hér og hlýði á umræðuna, taki þátt í henni eftir atvikum. Ég geri ráð fyrir að það sé keppikefli allra, ekki síst hæstv. forseta, að þingmenn fylgist með þeirri umræðu sem fara á fram um þingskapafrumvarpið sem forseti Alþingis er 1. flutningsmaður að.

Í mínum huga er mikilvægt að við getum tekið þátt í umræðunni, setið þingfundi. Ég held að ekki sé hægt að kvarta undan því að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs séu ekki duglegir við að sitja á þingfundum, að öllu jöfnu er við aðra að sakast þegar þingsalurinn er hálftómur. Við leggjum okkur fram um að sitja þingfundi. Ég vil taka fram að mjög margir hv. þingmenn úr öðrum flokkum sitja hér oft og fylgjast með umræðum, ekki skal kastað rýrð á það, en engu að síður virðist það alloft gerast að fámennt er í þingsalnum í almennri umræðu. Ef við gerum ráð fyrir því að þingstörfum sé hagað á þann veg að menn geti tekið þátt í umræðum og jafnframt búið sig undir næstu daga verðum við að gefa tíma til þess og svigrúm og ekki síst að haga skipulaginu þannig að ljóst sé með góðum fyrirvara hvað tekur við næstu sólarhringana. Það finnst mér vera galli á þingstörfunum eins og ég hef kynnst þeim á þeim stutta tíma sem ég hef setið á Alþingi.