135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

breytingar á þingsköpum.

[18:42]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að taka undir þá tillögu eða þá hugmynd sem hv. þm. Ögmundur Jónasson setti fram áðan, að stutt hlé verði gert á þessum þingfundi og þess freistað að ná samkomulagi um skipulag umræðunnar. Mér reiknast svo til að nú sé um það bil þriðjungur þingmanna staddur hér í þinginu. Það á að fara að fjalla um frumvarp um það með hvaða hætti þinginu skuli markaður ákveðinn starfsrammi og mér finnst mjög mikilvægt að það sé gert á þeim tíma þegar þingmenn eru almennt við til þess að fylgjast með umræðum. Ég tel því mjög mikilvægt að samkomulag sé um það með hvaða hætti umræðan skuli fara fram og á hvaða tíma.

Að sjálfsögðu lá fyrir með hvaða hætti dagskrá Alþingis var þegar þingfundur hófst í dag. Samt sem áður dróst nokkuð að ganga frá og greiða atkvæði um fjárlagafrumvarpið og koma því til 3. umr., en því er lokið. Þá liggur fyrir að það er orðið áliðið dags og markmiðið með frumvarpinu sem meiningin er að ræða hér á eftir er sú að gera Alþingi fjölskylduvænni vinnustað. Til að gera bragarbót þar á hefði verið tilhlýðilegt að taka tillit til þeirra sjónarmiða og miða við að umræða stæði ekki lengur en til sjö eða hreinlega að samkomulag næðist um það með hvaða hætti fyrirkomulag umræðunnar yrði. Ég vil leyfa mér að taka undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni, ég tel mikilvægt að formenn þingflokkanna setjist með forseta til að fjalla um það með hvaða hætti umræðunni yrði þá fram haldið.

Ég tek fram að ég er að mestu leyti stuðningsmaður þess frumvarps sem um er að ræða. Samt sem áður skiptir máli að vel sé rætt um það og þingmenn geri sér grein fyrir því hvað verið er að fjalla um, hvers konar rammi, hvers konar lög við ætlum að setja um þá starfsemi sem við ætlum síðan að starfa eftir næstu árin. Við eigum því ekki að hrapa að því, við eigum ekki að byrja umræðuna þegar komið er fram undir sjö á mánudegi.