135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:28]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður talar um mikilvægi þess að efla Alþingi sem umræðuvettvang. Það er kjarninn í málflutningi okkar, að standa vörð um rökræðuna á Alþingi. Erum við málsvarar þess að menn standi í ræðustól og tali klukkustundum saman? Nei. Við erum hins vegar andstæðingar þess að frumvörp, illa grunduð og í óþökk þjóðarinnar, séu keyrð með offorsi í gegnum þingið. Staðreyndin er sú að við höfum oftar en ekki staðið hér í ræðustól án þess að geta fengið vitneskju um það hvort umræðu um það mál sem er til umfjöllunar hverju sinni verður endanlega lokið við sólarupprás eður ei. Það er þess vegna sem við höfum verið að reyna að samþætta þessi sjónarmið eða þessar reglur, ræðutímann, vinnudaginn, þinghaldið.

Við höfum talað fyrir því að þinghald verði lengt, að þingárið verði lengt, fyrirkomulaginu á vinnudeginum breytt í grundvallaratriðum og að sjálfsögðu líka hitt að valdahlutföllum innan þingsins verði breytt. Það er í því samhengi sem við höfum talað um að forseti þingsins komi úr röðum stjórnarandstöðu, verkstjórinn á þingi, að formenn þingnefnda veljist til starfa á grundvelli reynslu og þá ekki síður úr stjórnarandstöðu en herbúðum stjórnarsinna.

Tillögur okkar ganga með öðrum orðum út á að efla þingið (Forseti hringir.) þannig að það standist framkvæmdarvaldinu og stjórnarmeirihlutanum á þinginu snúning.