135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[23:41]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að byrja á því að leiðrétta eina rangfærslu hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur (Gripið fram í.) — nei, ég skal koma að því síðar. Það er í fyrsta lagi það að ég er ekki fæddur og uppalinn í 101 Reykjavík. Það skiptir sjálfsagt ekki miklu máli þó svo hefði verið en ég er reyndar fæddur uppi á Akranesi og það skiptir í sjálfu sér heldur ekki máli. Ég hef heldur aldrei búið í 101 Reykjavík og geri það ekki enn þá, en það skiptir ekki máli hvar maður er búsettur eða hvar maður er fæddur, ekki í sambandi við það að reyna að sinna skyldum sínum sem löggjafi fyrir þjóðina.

Hv. þingmaður hvatti mig til að eiga orðastað við tvo þingmenn Frjálslynda flokksins sem hún nafngreindi. En hún gleymdi að nefna hv. þm. Grétar Mar Jónsson sem er þingmaður Suðurkjördæmis og mundi falla undir þetta sjónarmið líka, ég veit ekki af hverju hann varð út undan í þeirri upptalningu. En við höfum rætt þetta mál og ég, af því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er einn flutningsmanna þessa frumvarps, gerði strax grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ég hef verið að rekja, sem mér finnst mjög mikilvæg, að um það væri að ræða að miða við jafnstöðu þingmanna hvað varðar aðstöðu. Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að það kostar töluvert að vera í sambandi við kjósendur þegar fólk fer langar vegalengdir. Ég tel ekkert eftir mér þó að ég sé þingmaður Reykjavíkurkjördæmis að fara út á land til fundar við fólk, og geri það í mjög ríkum mæli. Ef tækifæri gefst vegna þingstarfa mun ég reyndar fara á fund í kjördæmi hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur á fimmtudagskvöldið. Ég vona að þingstörfum verði þannig háttað að ég geti rækt þær skyldur mínar að hitta kjósendur og lagt það flatarmál að velli sem til þarf til að hitta þá, og tel það ekki eftir mér. (ArnbS: Það geri ég ekki heldur.)