135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[23:44]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, eins konar grundvallarsamskiptareglur í störfum þingsins, afskaplega mikilvægt mál um breytingu á mikilvægum lögum sem hér er til umræðu.

Ég vil byrja á að segja að ég harma hvernig þetta mál bar að. Ég get upplýst að þótt ég hafi ekki, eins og ég hef sagt áður í þessum ræðustól, mjög langa reynslu af þingstörfum þá hef ég um langt skeið tekið þátt í stjórnmálastarfi og átt sæti í sveitarstjórn stærsta sveitarfélags landsins í um 13 ár og m.a. gegnt þar störfum formennsku í borgarstjórnarflokki og forseta borgarstjórnar. Af þeim sökum hef ég oft og tíðum þurft að eiga samskipti við alla þá flokka sem skipa borgarstjórnina um margt það er varðar starfshætti þeirrar ágætu samkomu.

Ég hefði talið afar þýðingarmikið með svona grundvallarmál að um það hefði náðst breið og góð samstaða allra sem eiga að starfa eftir þeim reglum sem þingsköpin kveða á um. Þess vegna harma ég að ekki hafi verið reynt til þrautar að ná slíkri samstöðu áður en frumvarpið var lagt fram. Ég gagnrýni því forseta Alþingis fyrir vinnubrögðin.

Hins vegar fagna ég því að það hefur komið fram í þessari umræðu af hálfu margra sem hafa tekið til máls ríkur vilji til að ná þeirri breiðu samstöðu sem við erum að kalla eftir, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það hlýtur að vita á gott þegar margir þingmenn, m.a. úr röðum stjórnarflokkanna og úr röðum annarra flokka sem eiga aðild að þessu þingmáli, lýsa því yfir í þessari umræðu að mikilvægt sé að reyna að ná slíkri samstöðu í þingnefnd úr að það tókst ekki áður en frumvarpið var lagt fram. Þessu vil ég fagna sérstaklega.

Það eru allnokkur atriði í þessu frumvarpi sem hér hafa einkum verið tekin til umræðu. Ég hygg að það megi fullyrða að í umræðunni út á við hafi mest borið á því að deilur séu um ræðutímann, takmörkun á ræðutíma frá því sem gildir í núgildandi þingsköpum og til þess sem verða á verði þetta frumvarp óbreytt að lögum. Það er svo sem ekkert sérkennilegt að það hafi orðið fyrirferðarmikið í umræðunni vegna þess að í frumvarpinu er gengið býsna langt í að takmarka ræðutíma frá því sem nú er að mínu mati.

Nú er það alls ekki svo að ég sé andvígur því að það séu takmarkanir á ræðutíma, þess vegna í öllum umræðum um lagafrumvörp og báðum umræðum um þingsályktunartillögur. En ég er þeirrar skoðunar að í því frumvarpi sem hér liggur fyrir sé gengið allt of langt hvað þetta snertir. Það er langur vegur frá því að ræðutími sé ótakmarkaður eins og í 2. umr. um lagafrumvörp í það að hann sé skorinn niður í 15 mínútur og síðan 5 mínútur. (Gripið fram í: Ekki vildi Ragnar Arnalds það.) Nú er ég ekki að ræða um álit eða skoðanir manna sem sátu á þingi áður heldur er ég að lýsa skoðunum mínum. Ég vona að forseti reikni með því að menn lýsi hér eigin skoðunum á því máli sem hér er til umfjöllunar. Það er ég að gera. Ég tel að hér sé gengið býsna langt í þessu efni.

Það er sagt að ekki sé dregið úr málfrelsinu með neinum hætti vegna þess að menn geti núna, miðað við þessa tillögu, talað eins oft og þeir kjósa, í 5 mínútur í senn. Frá mínum bæjardyrum séð er ég ekki sannfærður um að það verði sérstaklega góður bragur á því, ef út í það er farið, að menn komi upp trekk í trekk og tali í 5 mínútur í senn. Eitt er víst að það verður ekki samfelld röksemdafærsla sem fæst með þeim hætti.

Á einum stað í greinargerð er sagt að þetta muni leiða til þess að umræður verði líflegri. Það kann vel að vera. En er það endilega það sem við keppum eftir í umræðum á Alþingi, að þær séu líflegar, fjörlegar og skemmtilegar? Það er að vísu kostur þegar menn geta gantast í umræðunni og mikil hlátrasköll verða í salnum af og til. En fyrst og fremst hljótum við að vera að ræða þetta mál út frá því að við vöndum okkur betur í því starfi sem okkur er falið að sinna, þ.e. í löggjafarstörfunum. Ég er ekki sannfærður um að þær breytingar sem hér eru lagðar til muni leiða til þess.

Einn hv. þingmaður sagði í sinni ræðu, hv. þm. Jón Magnússon, að við byggjum við ofurvald framkvæmdarvaldsins og mikilvægt væri að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég fæ ekki séð að það dragi úr þessu ofurvaldi í því frumvarpi sem hér liggur fyrir jafnvel þótt það kunni að vera ásetningurinn, eins og oft hefur verið getið um í þessari umræðu. Ég fæ ekki séð að það sé dregið úr þessu ofurvaldi. Hins vegar er, að okkar mati, dregið úr þeim tækjum sem stjórnarandstaðan hefur til að hafa áhrif á þingstörfin, sem hún á að sjálfsögðu að geta haft. Hún á að sjálfsögðu að hafa áhrif á þingstörfin og gang mála jafnvel þótt hún hafi ekki neitunarvald um úrslit mála, vitaskuld ekki. Það hefur enginn ætlast til þess eða sagt að svo eigi að vera.

Ég vil líka segja að mér finnst skorta á röksemdir í greinargerð með frumvarpinu fyrir þeim fullyrðingum sem þar er að finna um að verið sé að styrkja starf þingsins og styrkja og efla stjórnarandstöðuna sérstaklega. Mér finnst vanta rök fyrir því. Þegar stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, sá flokkur sem væntanlega þarf að hafa forustu um að vera í stjórnarandstöðu, segir það fullum fetum að hann upplifi það ekki með þeim hætti sem flutningsmenn frumvarpsins tala um þá hljóta menn að leggja við hlustir og spyrja. Ég sé að forseti hristir höfuðið yfir því. En ef þeir sem eru í stjórnarandstöðu, í forustu stjórnarandstöðu, telja að ekki sé verið að koma til móts við þeirra sjónarmið og ekki verið að styrkja hlutverk stjórnarandstöðunnar er þá ekki eitthvað mark á því takandi? Er það stjórnarmeirihlutinn sem á að skera úr um það og hafa mest um það að segja hvernig hlutverk eða staða stjórnarandstöðunnar verði best efld? Ætli það sé ekki stjórnarandstaðan sjálf sem hefur mesta þekkingu á því og þeir sem hafa mikla reynslu af því að vera í stjórnarandstöðu, ég tala nú ekki um. (Gripið fram í.) Já, það eru margir sem hafa þá reynslu. Ég hvet sérstaklega til þess að þeir sem fá þetta mál til meðferðar í þingnefnd hlusti eftir þessum sjónarmiðum og leggi sig fram um að koma til móts við þau.

Það eru nokkur atriði sem ég vil nefna, efnisleg sem ég mundi telja að þyrfti sérstaklega að vinna með og athuga hvort hægt væri að ná góðri samstöðu um. Í fyrsta lagi er þetta sem ég hef þegar nefnt um ræðutímann, einkum í 2. umr. um lagafrumvörp. Ég tel að þar sé of langt gengið jafnvel þó ég vilji alls ekki leggjast gegn því að þar verði um einhverjar takmarkanir að ræða.

Í öðru lagi vil ég nefna það sem þegar hefur komið fram, m.a. af hálfu þingmanna Vinstri grænna, um afbrigðin. Ég tel mjög þýðingarmikið að skoða það að hækka þröskuldinn hvað varðar afbrigðin, t.d. í þrjá fjórðu. Það er ekki alveg eðlilegt að stjórnarmeirihluti þótt hann sé stór, geti skammtað sér þessi afbrigði sjálfur, einfaldlega vegna þess að það er verið að víkja frá meginreglunni þegar afbrigði eru veitt. Það á ekki að vera sérstaklega auðvelt mál að gera það og þarf a.m.k. að tryggja að verulega góð samstaða sé um slíkt.

Ég vil líka nefna ákvæði í 2. mgr. 12. gr. sem lúta að því að forseta sé heimilt að rýmka ræðutíma. Ég tel að þetta ákvæði þurfi að styrkja þannig að réttur stjórnarandstöðuþingflokka verði styrktur í þessu efni, að það sé ekki algerlega undir ákvörðun forsetans á hverjum tíma komið hvort orðið verði við óskum um aukinn ræðutíma.

Ég vil líka nefna, af því að það kom fram í umræðum fyrir helgi, m.a. frá hv. þm. Helga Hjörvar, að hann hefði sem forseti borgarstjórnar haft forgöngu um að setja takmarkanir á ræðutíma í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann vitnaði til þess að ég hefði m.a. átt þátt í því og það er rétt en þar var þó ekki gengið eins langt og hér, með að takmarka ræðutíma við 15 mínútur heldur má tala 30 mínútur í þeirri umræðu og hefði ég talið að menn gætu haft það til hliðsjónar í þessu samhengi. En þar er þó sú almenna regla að viss stórmál eru algerlega undanþegin þessari reglu. Ég nefni t.d. umræðu um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Þá er umræðan ótakmörkuð. Hið sama gildir um ársreikning sveitarfélagsins og nefni stórmál eins og aðalskipulag sveitarfélagsins. Slík mál lúta ekki takmörkunum á ræðutíma. Ég hefði þess vegna velt fyrir mér í þessu samhengi að stór mál sem hér koma inn, t.d. fjárlögin eða breytingar á stjórnskipunarlögum eða önnur stór mál, ættu sjálfkrafa að vera undanþegin þessum tímatakmörkunum og án þess að það þyrfti sérstaklega að biðja um það eða þannig að menn geti tekið það af sínum kvóta, sem hér er lagt til að sé á þingflokkum samkvæmt 12. gr., þ.e. að tvisvar á hverju þingi geti menn beðið um lengri ræðutíma.

Mér finnst ekki eðlilegt að ef menn óska eftir lengri ræðutíma um fjárlög þá sé það tekið af þessum kvóta. Ég tel það ekki og ég bendi á að í síðustu viku fór fram 2. umr. um fjárlög fyrir árið 2008. Mér er til efs að nokkur ræðumaður hvort sem hann var úr stjórn eða stjórnarandstöðu hafi talað í minna eða undir 15 mínútum (Gripið fram í: Ögmundur.) nema kannski Ögmundur Jónasson. Ég verð ekki var við að menn hafi litið á það sem eitthvert sérstakt málþóf nema síður sé. Ég tel að það hafi verið ítarlegar og góðar umræður.

Nú vil ég að vísu segja, varðandi markvissari umræðu um mál sem hér hefur borið á góma, að ég held að það sé alveg hægt að ná því fram, m.a. með því að fram fari meiri umræða í nefndum. Þar nefni ég fjárlögin sérstaklega. Ég teldi eðlilegt, ég vísa þar til reynslu minnar frá störfum að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, að það væru fleiri en fjárlaganefndin sem kæmi að þeirri umræðu. Það væri miklu meiri og ítarlegri umræða í fagnefndunum um fjárlagatillögur í hverjum málaflokki og að ráðherrar væru viðstaddir í umræðum um fjárlagatillögur sinna ráðuneyta. Þá held ég að auðvelt væri að takmarka ræðutímann um fjárlögin, ef þetta fylgdi, en ég sé það hvergi í þessum tillögum. Nú kann vel að vera að forseti og flutningsmenn þessa frumvarps hafi hugsað sér það en ég fæ ekki séð að það sé tryggt. Ég tel að þarna væri hægt að ná betri árangri.

Ég veit að svona er þetta unnið í þjóðþingum í löndunum í kringum okkur, að það fer fram umræða um fjárlagatillögur einstakra málaflokka inni í fagnefndunum og jafnvel opnar umræður fyrir fjölmiðla eða aðra sem vilja fylgjast með störfum, a.m.k. að einhverju leyti, sem ekki hefur verið gert hér. Þar tel ég að mætti gera bragarbót og það yrði til mikilla bóta fyrir störf Alþingis.

Menn hafa talað talsvert um réttinn til málþófs. Ég vil alls ekki setja samasemmerki milli þess að menn flytji langar ræður og að það sé málþóf. Við þekkjum að hægt er að setja á langar ræður ef menn vilja tefja mál og reyna að koma í veg fyrir að það fái afgreiðslu. Það hefur kannski verið notað og kannski eru menn að reyna að koma í veg fyrir slíkt. En auðvitað er það líka þannig að í stórum málum flytja menn langar og ítarlegar ræður af því að menn eru að reyna að koma rökstuðningi á framfæri. Þar eru kannski flókin mál á ferðinni, stórir lagabálkar sem einfaldlega tekur langan tíma að ræða. Á sama hátt er hægt að halda uppi málþófi með því frumvarpi sem hér liggur fyrir um breytingu á þingsköpum verði það að lögum. Auðvitað geta menn komið sér saman um það að setja á endalausar 5 mínútna ræður hver á fætur öðrum ef út í það er farið. Það verður ekki komið í veg fyrir þennan möguleika á málþófi með þessu frumvarpi sem hér liggur fyrir. Ég er alls ekki þeirrar skoðunar að það verði betri bragur á því nema síður sé.

Ég ætla líka að koma inn á það er varðar störf þingsins og hlutdeild stjórnarandstöðunnar í forustu fyrir þingið, þingnefndir o.s.frv. Ég tel mikilvægt að það komi fram í nefndaráliti eða þess háttar að ásetningurinn sé að stjórnarandstaðan eigi líka hlutdeild í forustustörfum í þinginu, í þingnefndum, alþjóðanefndum o.s.frv., í samræmi við þann styrk sem hún hefur hverju sinni. Það mundi styrkja þingið. Það væru mjög skýr skilaboð að mínu viti um að þingið sé sjálfstætt gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þetta tel ég mikilvægt.

Ég vil nefna það að ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur nýtt sinn styrk til hins ýtrasta, t.d. þegar kosið var í nefndir og ráð í vor og í raun miklu meira en það. Hér er notast við ákveðna reglu sem kölluð er d’Hondt-regla við kosningu í nefndir. Hún er ekki ný en samkvæmt henni er stjórnarmeirihlutinn, sem hefur um 65 eða 67% þingmanna, með 80% fulltrúa í sumum nefndum, t.d. öllum fimm manna nefndum. Þegar hér var kosið í yfirkjörstjórnir allra kjördæma, sem eru fimm manna, þá veldur þessi regla því að stjórnarliðar hafa fjóra af fimm nefndarmönnum, þ.e. 80% nefndarmanna í öllum kjörstjórnum sem eiga að hafa eftirlit og umsjón með kosningum. Þarna tel ég að ríkisstjórnarmeirihlutanum hefði verið í lófa lagið að segja: Nei, það er nóg fyrir stjórn að vera með þrjá af fimm mönnum, þ.e. 60% sem hefði verið miklu nær því hlutfalli sem stjórnin hefur hér á þingi.

Það má t.d. nefna fimm manna alþjóðanefnd eins og EFTA-nefndina sem ég á sæti í en þar er einn fulltrúi stjórnarandstöðunnar á móti fjórum fulltrúum stjórnarliðsins. Þarna tel ég að menn gangi allt of langt í að nýta til fulls þingmeirihluta sinn í stað þess að reyna að sýna sanngirni í þessum málum og að stjórnarandstaðan fái eðlilega hlutdeild í þessum störfum.

Ég vil líka nefna skipulag þingfunda Það hefur komið mér spánskt fyrir sjónir og mér finnst ekki nógu gott skipulag á þingfundum. Þá er ég fyrst og fremst að vísa til þess að það liggur sjaldnast fyrir fyrr en að kvöldi dags hvaða mál verða á dagskrá daginn eftir. Þingmenn sem eru með mál sem þeir ætla að tala fyrir og eru fyrstu flutningsmenn að vita það gjarnan ekki fyrr en kvöldið áður að þeir eigi að tala daginn eftir í málum. Þetta finnst mér að þurfi að laga og skipuleggja þingfundi lengra fram í tímann. Ég held að þarna séu hlutir sem mætti gjarnan vinna með. Það er kannski erfitt að koma því inn í þingskapalögin sjálf en þetta eru hlutir sem mættu gjarnan koma fram í nefndaráliti þegar mál kemur úr nefnd.

Hér er talað um það að styrkja þingið í alþjóðlegu samstarfi. Ég fagna því og ég tek undir að eðlilegt sé að gera það. En það þarf þá að gera mönnum það kleift. Ég vil í þessu sambandi sérstaklega nefna eitt sem ég hef ekki heyrt nefnt í umræðum til þessa en það eru reglur um innkomu varamanna. Ég tel að fyrir stjórnarandstöðu, sérstaklega við þær aðstæður eins og nú eru, þar sem ríkisstjórnarmeirihlutinn er mjög mikill, sé mjög erfitt fyrir stjórnarandstöðuna að manna þau erlendu samskipti sem hún á að taka þátt í miðað við þær reglur sem gilda um innkomu varamanna í dag og sinna jafnframt þeim skyldum sem eru á Alþingi. Ég mundi því gjarnan vilja heyra frá forseta Alþingis hvort hann hafi eitthvað leitt hugann að þessu þegar hann kom fram með þetta markmið, að auka alþjóðastarf, sem ég er almennt sammála að eigi að gera. Mér finnst spurning um hvort hægt væri að koma til móts við stjórnarandstöðuna í þessu samhengi.

Eitt atriði vil ég gjarnan nefna enn sem lýtur að skipulagi þingsins og þingstarfanna. Við þekkjum það og frá því er greint í frumvarpinu að í starfsáætlun skuli tilgreina hvenær eigi að vera þingfundir, hvaða daga einvörðungu fundir í nefndum og hvaða dagar eru kjördæmadagar. Allt gott um þetta en ég vil nefna eina hugmynd við forseta í þessari umræðu, sem ég kynntist fyrir stuttu þegar ég var í opinberum erindum í Strasbourg á vegum EFTA-nefndarinnar þar sem okkur gafst kostur á að hitta og kynnast störfum Evrópuþingsins. En fyrir utan það að í starfsáætlun Evrópuþingsins er skilgreint hvenær eru þingfundadagar, hvenær nefndadagar og hvenær kjördæmadagar, ef svo má kalla þ.e. þegar þingmenn fara heim til síns lands og starfa þar, eru líka sérstakir þingflokksfundadagar í starfsáætlun þingsins, þ.e. inni í starfsáætluninni er gert ráð fyrir því að þingflokkar hafi tiltekna daga með reglulegu millibili allt þingið sem eru fráteknir til þingflokkanna að vinna í stórum málum. Þetta finnst mér mikilvægt vegna þess að eins og ég upplifi málin í þinginu þá eru þingflokksfundir tvisvar í viku en það eru stuttir fundir, þeir eru knappir og þeir rúma í raun fyrst og fremst yfirferð yfir þau mál sem við erum að ræða þann dag eða allra næstu daga. Í mínum huga gefst allt of lítill tími yfir þingtímann sjálfan í þingflokksfundi til að fara í saumana á stórum mikilvægum málum, t.d. fyrir 2. umr. um fjárlög, svo dæmi sé tekið. Ég skýt þessu að í umræðunni núna sem hugmynd, að gert verði ráð fyrir sérstökum þingflokksfundadögum á starfsáætlun þingsins.

Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að lengja þessa umræðu mikið. Það er hægt að fjalla um svona stórt og ítarlegt mál á skemmri tíma en þeim sem ýtrustu tímatakmarkanir leyfa, sem hafa verið sett í þessa umræðu. Ég tel að ég hafi farið yfir þau helstu mál sem ég vildi koma á framfæri en vísa að öðru leyti til þeirra sjónarmiða sem hafa komið fram frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni og Steingrími J. Sigfússyni varðandi afstöðu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við viljum gjarnan taka þátt í að skapa góða og styrka umgjörð um þingstörfin. Við erum að sjálfsögðu reiðubúin að leggja okkar hugmyndir inn í þetta púkk. Við höfum reynt að gera það. Ég held að það væri öllum fyrir bestu, fyrir alla þingflokka, fyrir þingið í heild og forseta, að góð og breið samstaða náist um þessar grundvallarvinnureglur sem við störfum eftir og eru lögin um þingsköp Alþingis. Við munum a.m.k. fara í þá vinnu í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar, hver sem hún verður, með það hugarfar að hafa áhrif á frumvarpið eins og það liggur fyrir. Við viljum að lögin verði til bóta út frá þeim sjónarmiðum sem við höfum sett fram og ég vænti þess að aðrir muni gera slíkt hið sama, koma að þeirri vinnu með opnum huga. Þá er ekki loku fyrir það skotið að gera megi einhverja bragarbót á þessu frumvarpi sem geti leitt til þess að um það verði breið samstaða.