135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

áherslur íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:33]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins til að greina frá niðurstöðu hæstv. ríkisstjórnar á fundi í morgun. Lagt var fram minnisblað fjögurra ráðherra, þeirrar sem hér stendur, hæstvirtra fjármála-, iðnaðar- og heilbrigðisráðherra, og varðar efnið áherslur íslenskra stjórnvalda á 13. aðildarríkjafundi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna á Balí í Indónesíu sem hófst í gær.

Ný skýrsla vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar kveður afdráttarlaust á um loftslagsbreytingar af manna völdum. Hún varpar skýru ljósi á nauðsyn þess að ná víðtæku samkomulagi innan ramma loftslagssamningsins um samdrátt og losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Íslensk stjórnvöld leggja ríka áherslu á að sporna við hlýnun lofthjúpsins með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hafa samþykkt stefnumörkun um að draga úr henni um 50–75% fyrir árið 2050.

Á fundi aðildarríkja loftslagssamningsins á Balí munu íslensk stjórnvöld leggja höfuðáherslu á að samstaða náist um gerð nýs samkomulags sem feli í sér skuldbindingar fyrir öll helstu losunarríki heims. Á Balí hefst samningaferli sem lýkur í Kaupmannahöfn 2009 en þar þarf að reka smiðshöggið á samkomulag um annað skuldbindingartímabil samningsins.

Nýtt samkomulag þarf að taka mið af leiðsögn vísindanefndarinnar um að koma í veg fyrir hlýnun lofthjúps jarðar, að hún fari yfir 2°C frá því sem var við upphaf iðnbyltingar. Til að ná því markmiði þarf losun iðnríkjanna í heild að minnka um 25–40% fyrir árið 2020. Á sama tíma þarf samkomulagið að fela í sér að stærstu losendur í hópi þróunarlanda dragi úr vexti losunar.

Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að í þeim samningaviðræðum sem fram undan eru verði áfram byggt á sveigjanleikaákvæðum Kyoto-bókunarinnar, m.a. til þess að tryggja hagkvæmni aðgerða sem draga eiga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hafinn er undirbúningur þess að geta nýtt sér sveigjanleikaákvæðin (Forseti hringir.) hér á landi.