135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

áherslur íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:35]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta var fremur endaslepp ræða hjá hæstv. umhverfisráðherra. Ég bíð enn spennt eftir niðurlagi hennar því að auðvitað bíðum við hér eftir að fá að heyra hver verða samningsmarkmið Íslands á Balí. Ráðherrann var þar komin í ræðu sinni að ég held að hún hafi verið farin að hita upp undir því að við fengjum fréttirnar, annaðhvort góðar eða slæmar, þannig að ég óska eftir að hæstv. umhverfisráðherra fái að klára ræðu sína áður en við komum með frekari athugasemdir og bið um að komast aftur á mælendaskrána því að ég hef mikla löngun til að fá að tjá mig um þá niðurstöðu sem ég geri ráð fyrir að hæstv. umhverfisráðherra eigi eftir að birta þingheimi.