135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

áherslur íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:43]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er að reyna að átta mig á þessu eftir framsögu þriggja ráðherra og síðan var hæstv. iðnaðarráðherra svo vinsamlegur að láta mig fá þetta skjal í hendur og þá botna ég enn minna í hlutunum. Þegar loksins ríkisstjórnin reyndi að koma sér niður á eitthvað — en það hefur gengið erfiðlega eins og kunnugt er — og hélt fund í gærkvöldi þar sem stefnan virðist hafa orðið til sýnist mér niðurstaðan hafa orðið einhverjar silkiumbúðir utan um ekki neitt og að staða Íslands sé sú að áfram eigi að ætla öðrum þjóðum að binda sér byrðar og draga úr losun en sækja sjálf um áframhaldandi ef ekki auknar undanþágur fyrir Ísland.

Það eru engin fyrirheit í þessu plaggi það ég fæ best séð um það hvað Ísland ætlar að leggja af mörkum, engin vilyrði, loforð eða skuldbindingar um það að við ætlum að setja okkur tiltekin mörk í þessum efnum heldur er talað fallega um að taka þurfi mið af tilmælum vísindanefndarinnar, Ísland ætli að nota sér sveigjanleikaákvæði og í miðframsögunni kom skýrt í ljós að ætlunin er að reyna að gera áfram út á möguleika Íslands til að fá sérstöðu sína, sem svo er kölluð, viðurkennda og halda áfram að fá undanþágur til aukinnar losunar.

Ísland kemur til með að verða í mjög sérkennilegri stöðu í þessum viðræðum og stefnir í heimsmet í losun gróðurhúsalofttegunda á mann. Það er staðreynd sem mun ekkert hverfa þrátt fyrir einhverjar silkiumbúðir á Alþingi Íslendinga eða í minnisblaði af þessu tagi. Ég held að hæstv. ríkisstjórn verði bara að fara til baka og vinna vinnuna sína og það verði að komast á hreint hvað Ísland er tilbúið til að leggja þarna af mörkum, hvaða markmið um samdrátt í losun við ætlum að setja okkur og bjóða fram í samfélagi þjóðanna en ekki gera sífellt kröfur á aðra og reyna að sleppa sjálf án þess að taka á okkur nokkur óþægindi í þessum efnum.

Það er alveg greinilegt, virðulegur forseti, að það er áfram tilefni til að halda ríkisstjórninni við efnið því að enn sem komið er virðist engin stefna í reynd hafa verið mótuð (Forseti hringir.) og þetta er einhver vandræðalegasta tilraun til að breiða yfir það sem ég hef lengi séð.