135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

áherslur íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:45]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég held þvert á það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan að hér sé um að ræða sögulega og mjög jákvæða nálgun gagnvart þessu vandamáli. Það sem skiptir höfuðmáli í þessu plaggi er að íslenska ríkisstjórnin lýsir því yfir skýrt og skorinort að hún taki undir það meginmarkmið sem margar helstu þjóðir heims hafa sett fram, þ.e. að grípa til aðgerða sem leiða til þess að hlýnunin í andrúmslofti jarðar verði ekki meiri en 2°C miðað við það sem var fyrir iðnbyltinguna.

Það skiptir máli — (Gripið fram í.) og hvað þýðir það? Það þýðir að helstu iðnríki heimsins þurfa að taka á sig fyrir árið 2020 skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur 25–40%. Ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon heldur að það þýði ekki nýtt ok á herðar Íslendinga fer hann villur vegar. Þetta er yfirlýsing um að Ísland er reiðubúið að taka á sig þær skuldbindingar sem verða niðurstaðan í þessu samningaferli. Hér er um að ræða stefnumótun sem hægt er að telja upp í níu liðum.

Í dag er það þannig, þrátt fyrir hlátur hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur sem bersýnilega ber ekki skyn á alvarleika málsins, (Gripið fram í.) að menn eru ekki farnir að útfæra þetta neins staðar. Íslenska ríkisstjórnin lýsir því yfir að hún ætlar að taka þátt í þessu af fullum heilindum. Hin jákvæða nálgun felst ekki bara í þeirri yfirlýsingu heldur líka því að við tökum undir þær kröfur sem settar hafa verið fram á alþjóðavísu, t.d. um stórauknar fjárfestingar í að búa til nýja tækni til þess að fanga kolefni og farga kolefnum til að koma í veg fyrir eyðingu regnskóga. Það markmið að helminga eyðingu regnskóga sem þessi ríki munu auðvitað þurfa að greiða fyrir þeim þjóðum sem draga úr eyðingu sinni (Forseti hringir.) nægir til þess að ná helmingi þessa.

Það eru mörg önnur atriði í þessum níu liðum sem eru þess eðlis að ég get ekki sagt annað en að þau eru ákaflega jákvæð. Það er bara einn flokkur sem hlær að þessu af því (Forseti hringir.) að hann var gripinn í bólinu af því hann hafði ekki svona stefnu, og það eru Vinstri grænir. (Forseti hringir.) Ég þakka sérstaklega hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir (Forseti hringir.) jákvæðar undirtektir, vegna þess, frú forseti, að það þýðir að það er yfirgnæfandi stuðningur við þessa stefnumótun hér. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Ég bið menn að virða tímamörk.)