135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

fjárhagur sveitarfélaga og samskipti ríkisins við þau.

[14:01]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að árétta að ríki og sveitarfélög hafa að sjálfsögðu átt með sér langt og gott samstarf í gegnum árin. Á undanförnum árum hafa fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga fengið aukið vægi enda mikilvægt að hinn samfélagslegi hluti efnahagslífsins stilli saman strengi sína til að keppa að efnahagslegum markmiðum. Sveitarfélögin gegna ábyrgðarmiklu hlutverki í þjóðfélaginu á ýmsum sviðum og ríkisvaldið hefur verið reiðubúið til að styrkja stöðu sveitarfélaganna enn frekar. Með upptöku staðgreiðslukerfis skatta á sínum tíma var sveitarfélögunum tryggður öruggur tekjustofn, tekjuútsvarið, sem er langþýðingarmesti tekjustofn sveitarfélaganna og hefur reynst mun minna háður hagsveiflunni en virðisaukaskatturinn sem er veigamesti tekjustofn ríkisins. Að auki tryggir ríkissjóður sveitarfélögunum full skil á útsvarinu eins og þekkt er.

Það hefur verið sterkur vilji stjórnvalda að færa til sveitarfélaga mikilvæg samfélagsleg verkefni sem ríkið hefur sinnt en ætla má að séu betur komin hjá sveitarfélögunum. Þetta á einkum við um verkefni sem snúa að beinni þjónustu við einstaklinga. Afar misjafn íbúafjöldi sveitarfélaga hefur hins vegar torveldað þessa verkefnatilfærslu þar sem sveitarfélög með fáein hundruð íbúa eru mun verr í stakk búin til að veita eðlilega þjónustu en þau sem telja tugi þúsunda íbúa.

Flutningur grunnskólans til sveitarfélaga árið 1996 markaði þáttaskil í verkefnaflutningi til sveitarfélaganna. Við þá tilfærslu jókst hlutdeild þeirra í útgjöldum hins opinbera frá því að vera rúm 23% í það að vera rúm 27%. Á árinu 2005 var hlutdeild sveitarfélaga komin í tæplega 30% og ári síðar í 32,2. Aukin fjárfesting skýrir að hluta hækkunina milli áranna 2005 og 2006. Til að jafna aðstöðumun sveitarfélaga hefur ríkissjóður m.a. beint tekjum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Af þessum sökum hefur framlag í jöfnunarsjóðinn aukist gríðarlega á undanförnum árum og nemur nú um 12 milljörðum kr. Þó svo að ríflegir tekjustofnar hafi fylgt grunnskólanum yfir til sveitarfélaga hafa fjármál ýmissa þeirra þróast þannig að hagur þeirra fór versnandi, versnaði á sama tíma og hagur ríkisins batnaði. Á sama tíma áttu sér stað miklir búferlaflutningar frá dreifbýli til þéttbýlis.

Mörg sveitarfélög brugðust við versnandi afkomu með auknu samstarfi eða sameiningu eins og alþekkt er í sölum Alþingis. Sveitarfélögin eru nú 79 talsins en voru 170 í ársbyrjun 1996. Þannig hafa mörg sveitarfélög slegið tvær flugur í einu höggi, bætt eigin fjárhagsstöðu og myndað breiðari grundvöll til að taka á móti frekari verkefnum. Árangurinn hefur orðið sá að sveitarfélögin hafa skilað afgangi þegar á heildina er litið hin síðari ár, upp á ríflega milljarð króna á árinu 2005, tæplega 4 milljarða á síðasta ári og áætlanir gera ráð fyrir tæplega 6 milljarða afgangi á þessu ári. Vandamálið er hins vegar, og það er viðurkennt, hversu mismunandi rekstrarstaða er milli einstakra sveitarfélaga þar sem sum skila miklum afgangi á meðan önnur eru í taprekstri. Það er sameiginlegt hagsmunamál ríkis og sveitarfélaga að styrkja fjárhagslegan rekstrargrunn sveitarstjórnarstigsins.

Mér þykir vænt um að hv. þingmaður, málshefjandi, skyldi vitna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí sl. en þar segir, með leyfi forseta:

„Tekju- og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð með það að markmiði að efla sveitarstjórnarstigið.“

Þá hefur ríkissjóður hin síðari ár veitt tímabundið aukaframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að jafna aðstöðumun sveitarfélaganna. Í ár og næstu tvö ár mun framlagið nema 1.400 millj. kr. hvert ár. Til viðbótar er rétt að geta þess að í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir 750 millj. kr. til sveitarfélaganna á árunum 2007–2009 vegna tekjumissis sem þau verða fyrir vegna minni þorskkvóta.

Í mars 2007 undirrituðu þáverandi ríkisstjórn og Samband ísl. sveitarfélaga viljayfirlýsingu þar sem m.a. er lögð áhersla á mótun tillagna um fjármálareglur fyrir sveitarfélögin og bætta upplýsingaöflun sem tryggt geti að fjármál sveitarfélaganna vinni með ríkisfjármálunum að því er varðar almenna hagstjórn. Í þessu sambandi verði sérstaklega hugað að markmiðssetningu varðandi þak á vöxt útgjalda sveitarfélaga, þak á skuldahlutfall þeirra og tekjuafkomu þeirra yfir hagsveifluna. Takist að koma slíkum fjármálareglum í framkvæmd hjá sveitarfélögum er ríkisstjórnin tilbúin að vinna með þeim að lækkun skuldastöðu þeirra að því gefnu að afkoma ríkissjóðs leyfi slíkt.