135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

fjárhagur sveitarfélaga og samskipti ríkisins við þau.

[14:06]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Í raun og veru er ekki hægt að ræða um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna almennt sem eina heild vegna þess að staða einstakra sveitarfélaga er mjög mismunandi. Það fer eftir stærð þeirra og staðsetningu á landinu, það er jafnvel mismunandi staða hjá sveitarfélögum sem eru svipuð og á sama landsvæði. Mörgum sveitarfélögum hefur reynst æ erfiðara að standa undir lögbundnum verkefnum vegna fjárhagsstöðunnar.

Skerðing á veiðiheimildum mun koma mjög illa við mörg sveitarfélög og sjávarbyggðir. Það mun draga úr tekjum þeirra en verkefnin munu standa eftir og af því ber að hafa áhyggjur. Ég hvet ríkisstjórnina til að fara vel yfir þau mál með Sambandi ísl. sveitarfélaga og finna leiðir til að koma betur til móts við þau.

Samstarfsvettvangur ríkis og sveitarfélaga er mikilvægur og hann þarf að efla. Í gildi er samstarfssáttmáli eins og hæstv. ráðherra fór hér yfir og á þeim grundvelli var m.a. gert samkomulag síðasta vetur um að sveitarfélögin setji sér fjármálareglur. Ég tel það mikilvægt mál en það olli mér hins vegar vonbrigðum á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga fyrir stuttu að þar kom ekki fram að mikið hafi gerst í þeim efnum, því miður, og þar stendur í raun og veru upp á sveitarfélögin.

Ríkisvaldið þarf að bera mikla virðingu fyrir sveitarstjórnarstiginu í samskiptum þessara aðila. Ríki og sveitarfélög eru samstarfsaðilar og eiga að vera það en ekki eins konar keppinautar oft og tíðum. Þar á auðvitað ekki að vera nein togstreita og hvet ég til þess að áfram verði góð samskipti þar á milli.

Þingið þarf líka að bera virðingu fyrir sveitarstjórnarstiginu, m.a. með því að við breytingar á verkaskiptingu ráðuneyta þar sem gert er ráð fyrir að sveitarstjórnarmálin færist frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis verði ákveðið að ráðuneytið heiti sveitarstjórnar- og samgönguráðuneyti en ekki eingöngu samgönguráðuneyti. Ég vil nota þetta tækifæri og skora á hæstv. forsætisráðherra að beita sér fyrir þessari breytingu.