135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

fjárhagur sveitarfélaga og samskipti ríkisins við þau.

[14:10]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Í mínum huga er engin spurning að skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga er ekki í lagi og hefur ekki verið það til margra ára. Allir sem í þessum sal sitja og þekkja til sveitarstjórnarmála vita það og skynja og hafa áttað sig á því. Það er alveg rétt sem hv. þingkona Steinunn Valdís Óskarsdóttir minntist á að það er oft hlutskipti sveitarstjórnarmanna að koma hálfbetlandi á hnjánum fyrir Alþingi og alþingismenn. Það gengur auðvitað ekki að hlutverk þeirra sé með þeim hætti.

Það liggur fyrir frumvarp frá sjálfstæðismönnum um að lækka útsvar og hafa frjálst útsvar niður á við miðað við það sem er í dag, sem mun þýða enn meiri mismun á milli sterkustu sveitarfélaganna og þeirra sem verst standa ef farið verður í svona samkeppni með útsvarsprósentuna. Sama má segja með fjármagnstekjuskattinn, það þarf að skoða af hverju einstaklingar geta breytt sér, eins og ég hef stundum minnst á hérna. Það er engin spurning að fiskveiðistjórnarkerfið hefur haft mjög veruleg áhrif og niðurskurður í þorski á verst stöddu sveitarfélögin í landinu og það verður að taka á því með einhverjum hætti. Það er verðugt verkefni og alþingismenn verða að átta sig á hvað er að „bögga“ þessi ágætu sveitarfélög.