135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

fjárhagur sveitarfélaga og samskipti ríkisins við þau.

[14:14]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Fjárhagsmál sveitarfélaganna eru með ýmsum hætti eftir því hvernig þau eru stödd og það er erfitt að finna eina afgerandi ástæðu fyrir mismunandi afkomu. Ræður þar áreiðanlega miklu stærð þeirra, bæði hvað varðar mannfjölda og landfræðilega stærð. Mismunandi þjónustustig og mismunandi skuldabyrði er einnig nokkuð sem þarf að skoða. Er sveitarfélag í vexti eða hefur íbúum fækkað? Afkoma þeirra ræðst ekki alltaf af því hversu tekjuhá sveitarfélögin eru reiknað sem tekjur á hvern íbúa. Ef skoðaðir eru ársreikningar eru skuldir vaxtarsvæðanna eðli málsins samkvæmt miklar vegna krafna um uppbyggingu á leikskólum, skólum og annarri þjónustu, og auðvitað er það svo að sumir spila djarfar en aðrir í því.

Það er vandasamt að taka einstök sveitarfélög út úr en ef þau eru flokkuð t.d. í Reykjavík, í höfuðborgarsvæðið, í vaxtarsvæði og fámennissveitarfélög þá er Reykjavík verst sett ef aðeins er litið á rekstrarniðurstöðu en vaxtarsvæðin ef litið er á skuldir á hvern íbúa. Vandinn virðist hins vegar vera mestur hjá millistórum sveitarfélögum utan vaxtarsvæða þar sem þjónustustigið er nokkuð hátt en íbúum fækkar. Virðist bilið aukast þar nokkuð hratt á milli þessara hópa sveitarfélaga.

Þó ber að geta þess að ekkert sveitarfélag er nú á svokallaðri gjörgæslu en starf eftirlitsnefndarinnar hefur virkað mjög vel til þess að fylgjast með sveitarfélögunum og leiðbeina þeim. Aðalatriðið nú um stundir varðandi fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga er að þau þurfa að vera í góðum farvegi og stöðugt samráð að eiga sér stað í gegnum ýmsar starfs- og stefnumótunarnefndir og beint samráð forsvarsmanna (Forseti hringir.) Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar. Ég (Forseti hringir.) deili ekki þeirri skoðun að það þurfi utanaðkomandi aðila til að þessi stjórnsýslustig geti rætt saman, ég held að þau séu fullfær um það sjálf.