135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

fjárhagur sveitarfélaga og samskipti ríkisins við þau.

[14:19]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það ber að þakka þessa umræðu um stöðu sveitarfélaganna og samskipti ríkis og sveitarfélaga. Ég held að það sé aldrei of brýnt hversu mikilvægt sveitarstjórnarstigið er og hversu mikilvægt er að búa vel að fólki hvar sem það býr á landinu, á landsbyggðinni ekki síður en annars staðar. Nú þegar hefur komið fram að það hallar undan hjá landsbyggðinni. Það er þess vegna sem ríkisstjórnin hefur sett sér nokkuð háleit markmið um að bæta stöðu landsbyggðar í þessum samskiptum, bæta grundvallarþjónustuna, og líka tekið af skarið um að endurskoða eigi og efla sveitarstjórnarstigið og samskiptin hvað snertir tekjur.

Við vitum öll að sveitarfélögin eru með nærþjónustuna og sífellt er verið að færa fleiri verkefni til sveitarfélaganna. Það er mjög mikilvægt að sveitarfélög, hvar sem er á landinu og hver sem íbúafjöldinn er, ráði við að taka við þeirri þjónustu. Það er þó ekki vandalaust þegar litið er á stöðu sveitarfélaganna. Staða þeirra er mjög mismunandi og eins og þegar hefur komið fram ræðst það ekki eingöngu af stærð heldur líka af skuldastöðu, tekjumöguleikum og öðru svipuðu. Megintekjurnar, útsvar, jöfnunarsjóður og fasteignagjöld, leggjast afar mismunandi á eftir sveitarfélögum og þjónustutekjurnar eru einnig mjög mismunandi, en það er mikilvægt að sveitarfélögin þurfi ekki að leggja á háar þjónustutekjur og geti keppt við höfuðborgarsvæðið.

Það er líka mjög áberandi í samanburði á sveitarfélögum að sum þeirra búa við öflugar tekjulindir í gegnum fasteignaskatta og eru í allt annarri aðstöðu en önnur sveitarfélög. Það er mikilvægt að horfa til allra þessara þátta þegar tekjustofnar eru skoðaðir. Það er verkefni ríkisstjórnar og Alþingis að ná samkomulagi við sveitarfélögin um breytta tekjuskiptingu og aukin verkefni til sveitarfélaganna, bæði hvað varðar málefni aldraðra og fatlaðra. Ég treysti á að okkur takist vel til í því ferli öllu saman með eflingu sveitarstjórnarstigsins að markmiði.