135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:53]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi varðandi það hvort umsagnir annarra nefnda hefðu átt að fylgja með þessu nefndaráliti þá játa ég að ég leiddi ekki hugann að því. Álit annarra nefnda komu til umfjöllunar í allsherjarnefnd og voru meðal þeirra gagna sem um var fjallað. En ég hygg að lítið mál sé að koma til móts við hv. þingmann og gera þær umsagnir með einhverjum hætti aðgengilegar. Hugsunin var hins vegar sú að umsagnir og umfjöllun þessara nefnda væru meðal þeirra gagna sem fyrir lægju hjá allsherjarnefnd þegar um málið væri fjallað. Þó að fram hafi komið ýmsar athyglisverðar ábendingar og sjónarmið í þessum umsögnum þá hygg ég að þær breyti engu um meginstefnu frumvarpsins eða þær meginbreytingar sem þar eru boðaðar.

Hvað fjárlagaliðinn varðar kom kostnaðarmat inn í umfjöllun allsherjarnefndar og gestir frá fjármálaráðuneytinu komu á fund nefndarinnar og gerðu grein fyrir kostnaði vegna breytinga á húsnæði Stjórnarráðsins og afleiddum kostnaði vegna flutnings sem metinn er á um 200 millj. kr. Sá kostnaður kom með breytingartillögu inn í 2. umr. um fjárlagafrumvarpið sem var samþykkt í gær þannig að sá kostnaður er fyrirséður og gert hefur verið ráð fyrir honum.

Varðandi annan kostnað er það rétt sem kom fram í mati eða ræðu hv. þingmanns að ekki er gert ráð fyrir auknum fjármunum til verkefna sem verið er að færa á milli, en ekki er heldur gert ráð fyrir minni fjármunum. Gert er ráð fyrir að fjármunirnir færist á milli með verkefnunum.