135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[16:15]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir langa og ítarlega ræðu um þetta málefni. Ég hafði gaman af ýmsum köflum hennar þó að mér þætti í fyrri partinum sem botninn væri eiginlega eftir uppi í Borgarfirði (JBjarn: Þú varst nú að …) þegar hv. þingmaður fjallaði um yfirlýsingar einstakra ráðherra á fyrri kjörtímabilum.

Mér finnst þau stóryrði og þær hrakspár sem er að finna í málflutningi hv. þm. Atla Gíslasonar fullkomlega úr öllu samhengi og hlutfalli við málefnið sem hér er til umfjöllunar. Það á við um svo marga þætti að ég kem því ekki að í stuttu andsvari. Ég mun koma nánar að því síðar við umræðuna.

Ég vil þó nefna eitt atriði sérstaklega og það varðar það að allan rökstuðning skorti fyrir breytingunum. Ég velti fyrir mér hvaða raunverulegu breytingar felist í frumvarpinu. Það er verið að fjalla um að matvælaeftirlit færist frá þremur stofnunum til einnar. Vantar rökstuðning fyrir slíkri breytingu, fyrir því að færa matvælaeftirlit á einn stað? Er verið að veikja matvælaeftirlitið eða er verið að styrkja það? (GÁ: Þótt það sé nú einn skynsamlegur punktur.) Ég vildi spyrja hv. þm. Atla Gíslason að því, en hv. þm. Guðni Ágústsson getur áreiðanlega komið nánar inn í þá umræðu á eftir.

Ég vildi líka spyrja hv. þm. Atla Gíslason hvort rökstuðning vanti fyrir því að færa alla háskóla í landinu undir menntamálaráðuneytið. Það er kannski skilvirkara og betra í augum hv. þingmanns að hafa tvö menntamálaráðuneyti, annað sem er með tvo háskóla og hitt með alla hina. Ég held að það sé augljóst að það er skynsamlegt að færa þetta saman.

Í þriðja lagi (Forseti hringir.) er fjallað um að færa vatnamælingar til Veðurstofu. Það gerir enginn athugasemd (Forseti hringir.) við þá grundvallarbreytingu. (Forseti hringir.) Stóryrðin eiga sér enga innstæðu þegar á allt er litið.