135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[16:21]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Miðað við það hvernig hv. þm. Atli Gíslason hefur reynt að reka hornin í nánast allar þær breytingar sem þetta frumvarp felur í sér held ég að það blasi algjörlega við að að hans mati eigi ekki að gera neinar breytingar, hvorki á stofnanaumhverfinu né umhverfi Stjórnarráðsins. Það er út af fyrir sig athyglisverð niðurstaða og hlýtur þá að vekja þá spurningu hvort skoðun vinstri grænna sé sú að ekki eigi að gera neinar breytingar, hvorki á stofnanaumhverfinu né Stjórnarráðinu.

Hv. þingmaður kom öllum á óvart þegar hann sagði að auka þyrfti samkeppni varðandi skólana og taldi að til þess að svo gæti orðið yrði að tryggja að landbúnaðarháskólarnir væru landbúnaðarráðuneytismegin. Hljóta þau rök þá ekki að eiga við um fleiri skóla? Ég var að skoða fjárlagafrumvarpið. Iðnskólinn (Gripið fram í.) heyrir t.d. undir menntamálaráðuneytið. Er þá ekki skoðun hv. þingmanns sú að eðlilegt sé að iðnskólarnir í landinu heyri undir iðnaðarráðuneytið og þannig megi áfram telja? Er hann t.d. þeirrar skoðunar (GÁ: Þeir hefðu dáið í menntamálaráðuneytinu.) að ekki sé hægt að hafa samkeppni milli menntastofnana nema þær séu á forræði mismunandi ráðuneyta?

Ég spyr líka hv. þingmann hvort hann hafi talað í nafni síns flokks þegar hann sagði hér áðan að hann hallaðist fremur að því — reyndar fullyrti hann ekki alveg um skoðun sína, hann sagði: Ég hallast fremur að því að landgræðslan og skógræktin eigi að vera í heilu lagi undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu fremur en umhverfisráðuneytinu. Er þetta skoðun vinstri grænna?

Ég tel full rök fyrir því sem hér hefur verið gert. Það er verið að tryggja að framkvæmdaþátturinn, sem sé atvinnuvegaþáttur skógræktarinnar og landgræðslunnar, sé hjá landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu sem er eðlilegur hlutur. Mér fannst mjög undarlegt þegar hv. þingmaður, sem kemur úr umhverfisverndarsinnuðum flokki og hefur sjálfur talað sem mikill umhverfisverndarsinni, stillti málinu þannig upp að umhverfisvernd og atvinnulíf færu ekki saman. Eru það einhverjar ósættanlegar andstæður, umhverfisverndin í landinu og atvinnulífið? Þetta er mjög fróðleg nálgun sem ég ætla að halda til haga næst þegar hv. þingmaður tekur til máls um umhverfismál.